Festi, sem er meðal annars eigandi N1 og Krónunnar, hefur gengið frá kaupsamningi á versluninni Super1 að Hallveigarstíg í miðbæ Reykjavíkur en gengið var frá honum í lok síðasta mánaðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Félagið áfromar að starfrækja verslun undir merkjum Krónunnar í húsnæðinu.

Seljandi Super1 er félagið Ísborg verslanir, sem er í eigu Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sports Direct á Íslandi.

Hann eignaðist húsnæðið þegar hann keypti þrjár Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu af Högum í árslok 2018, en salan á þeim var á meðal fjölmargra skilyrða Samkeppniseftirlitsins sem Hagar samþykktu að undirgangast í tengslum við kaup félagsins á Olís.

Auk kaupa á versluninni við Hallveigarsteig keypti Sigurður Pálmi verslanir Bónuss á Smiðjuvegi og í Faxafeni og hóf rekstur þar undir merkjum Super1. Báðum þeim verslunum var lokað í fyrra.