Kaupsamningur um kaup FÍ fasteignafélags á hluta fasteignarinnar Bankastræti 7 var undirritaður í dag. Kaupin eru á jarðhæð og kjallara byggingarinnar. Seljandi fasteignarinnar er Bankastræti fasteignafélag ehf.

Þessi hluti Bankastrætis 7 er verslunarhúsnæði, heilir 811,6 fermetrar að stærð. Kaupverð fasteignarinnar er 476,5 milljónir króna. Kaupin eru fjármögnuð með eigin fé og stækkun á skuldabréfaflokki fasteignafélagsins, FIF 13 01.

Að sögn fellur fjárfestingin vel að stefnu félagsins hvað varðar staðsetningu og leigutíma, en leigutaki í Bankastrætinu er verslun Cintamani. Húsnæðið er því 100% útleigt til 6 ára samkvæmt samningi.

Með kaupunum á Bankastræti 7 aukast leigutekjur félagsins um 40 milljónir króna á ári. EBITDA félagsins eykst sömuleiðis um 7% á ársgrundvelli, en gert er ráð fyrir afhendingu eignarinnar til FÍ í byrjun árs 2016.

FÍ fasteignasala er að meirihluta í eigu Kviku, áður MP Banka, auk lífeyrissjóða. Félagið sérhæfir sig í að fjárfesta í atvinnuhúsnæðismarkaðnum.