Innistæður upp á 10 milljarða króna hafa safnast í Auði, nýjan netbanka Kviku, frá því netbankinn opnaði 12 mars. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu Kviku vegna uppgjörs fyrsta ársfjórðungs . Auður hefur boðið einstaklingum upp á 4% vexti á óbundnum innistæðum, sem eru hærri en vextir á sambærilegum innlánum hjá viðskiptabönkum en miðað er við 250 þúsund króna lágmarksupphæð hjá Auði.

Þá er jafnframt greint frá því að hagnaður síðasta ársfjórðungs hafi verið sá hæsti í sögu bankans, eða 852 milljónir króna. Kvika hækkaði afkomuspá sína fyrir árið 2019 úr 1,99 milljörðum króna hagnaði fyrir skatta í 2,7 milljarða króna samhliða birtingu uppgjörsins eða um 36%. Hagnaður ársins 2018 fyrir skatta nam 1,8 milljörðum króna. Frá 1. mars 2019 bætist rekstur GAMMA inn í samstæðu félagsins.

Stólaskipti urðu í Kviku í morgun þar sem Ármann Þorvaldsson, forstjóri bankans, skiptir um starf við Marínó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóra. Ármann verður því aðstoðarforstjóri og Marínó forstjóri Kviku.