Þó að fækkun starfa í fjármálageiranum sé áframhald þróunar síðustu ára voru uppsagnir vel yfir hundrað manns í síðustu viku umfangsmeiri en búist var við, að því er Viðskiptablaðið hefur eftir doktor í vinnumarkaðsfræðum sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Staðan á vinnumarkaði núna er erfið og skýr merki um aukið atvinnuleysi en jafnframt er svigrúm hagkerfisins til að bregðast við meira en oft áður.

Uppsagnirnar í fjármálageiranum komu sama dag og Hagstofan birti tölur um þónokkra aukningu atvinnuleysis í ágústmánuði frá því í júlímánuði á undan, eða um 1,3 prósentustig upp í 4,4%, miðað við árstíðarleiðréttar tölur byggðar á vinnumarkaðsrannsóknum stofnunarinnar. Á sama tíma var atvinnuþátttakan 1,2 prósentustigi lægri en í júlí eða 80,0%, en hlutfall starfandi fólks miðað við þennan mælikvarða nam 76,9% sem er með því lægsta sem mælst hefur síðasta hálfa árið.

Ef horft er til óleiðréttra talna nam atvinnuleysið 4,2% í ágústmánuði, en leita þarf aftur til aprílmánaðar 2018 til að finna meira atvinnuleysi en þá nam það 4,6%. Síðan þá náði atvinnuleysið hæst í maí á þessu ári eða 4,0%, mánuðinn eftir fall Wow air. Áætlar könnunin að ríflega 204 þúsund manns hafi verið á vinnumarkaði á aldursbilinu 16 til 74 ára að jafnaði í ágúst 2019, en þar af hafi um 195.800 verið starfandi og þá 8.600 atvinnulausir samkvæmt þessum mælikvarða.

Það er töluverð breyting frá því í ágúst fyrir ári þegar atvinnuleysið nam 2,5%, en síðan þá hefur vinnuaflið dregist saman um 2.400 manns, sem sé um þrjú prósentustig, og á sama tíma hefur starfandi fólki fækkað um 5.800 manns,  sem er um 4 prósentustiga lækkun milli ára. Í ágúst 2018 voru jafnframt 3.500 færri atvinnulausir eða um 5.100 manns, meðan fjölgun þeirra sem voru áætlaðir utan vinnumarkaðar nam tæplega fimmtungi síðan þá, eða úr 44.100 í 52.600.

Vísbending um falið atvinnuleysi

Konráð S. Guðjónsson , hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir þessa miklu lækkun í atvinnuþátttöku gefa vísbendingar um falið atvinnuleysi, líkt og sást í síðustu niðursveiflu. „Þetta er gríðarleg breyting á stuttum tíma, en fólk virðist vera að fara út af vinnumarkaði því staðan er sú að það er erfiðara að sækja ný störf,“ segir Konráð. Hann bendir á að vinnumarkaðskönnun Hagstofnunar sé spurningakönnun þar sem ýmsar úrtaks- og svörunarbjaganir geta haft áhrif á niðurstöðurnar, sem sveiflist mikið og nái líklega ekki vel til innflytjenda.

„Ef við skoðum hins vegar staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra yfir þá sem eru að borga tekjuskatt, sem eru hin helstu gögnin um stöðuna á vinnumarkaðnum og er nokkuð áreiðanlegur mælikvarði á fjölda þeirra sem eru að vinna, sést að þar er klár fækkun. Það er eðlilegt að það komi aðeins smá meiri kæling inn í kerfið eftir jafn gríðarlega hraðan uppgang eins og hefur verið síðustu árin. Almennt séð virðist staðan núna vera nokkuð þung, og ég held að allir sjái það, en þó ber auðvitað að varast að lesa of mikið í uppsagnir hjá örfáum fyrirtækjum,“ segir Konráð sem rekur uppsagnirnar í síðustu viku að miklu leyti til tæknibreytinga.

„Við erum að sjá í þessu þunga undiröldu sem tengist vaxandi samkeppni á alls konar mörkuðum, meðal annars vegna aukinnar sjálfvirkni og opnunar markaða yfir landamæri, nú síðast í bankakerfinu. Það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni ef það verða uppsagnir í störfum sem krefjast mikillar sérfræðiþekkingar eins og við viljum byggja upp hér á landi til lengri tíma. Við hjá Viðskiptaráði höfum ítrekað bent á ákveðnar hindranir í rekstrarumhverfi fyrirtækja sem ekki byggja á náttúruauðlindum. Þar erum við að tala um þætti eins og hve hár launakostnaðurinn er fyrir fyrirtæki, við erum með háa skatta og svo leggst tryggingagjaldið sérstaklega á mannaflsfrekar greinar sem eru í alþjóðlegri samkeppni. Ef stjórnvöld vilja bregðast við þessari niðursveiflu og örva þekkingargreinar hljóta þau að ryðja þessum hindrunum úr vegi, enda hjálpar það til langrar framtíðar að byggja þær upp.“

Um helmingur frá Wow enn atvinnulaus

Karl Sigurðsson , sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að því miður hafi stofnunin ekki góða yfirsýn í hvers konar störf fólk fari þegar það fái vinnu, því margir hætti einfaldlega að skrá sig. Sama hafi gilt um þá tæplega 800 sem skráðu sig atvinnulausa af um 1.000 starfsmönnum Wow air, sem misstu vinnuna í vor. Hann segir að um helmingur þeirra sé enn á atvinnuleysiskrá. „Vandamálið er að störfum í fjármálageiranum hefur verið að fækka síðustu sjö eða átta árin á sama tíma og mjög margir eru að útskrifast úr viðskipta- og hagfræðigreinum,“ segir Karl.

„En við sjáum að fólk sem kemur hingað á blað hjá okkur og er með þessa menntun er oft í ýmsu og fer alveg í störf til dæmis í ferðaþjónustu að einhverju marki. Við sáum eftir hrun, svo dró úr því, en nú virðist það vera að aukast aftur, að óskað er eftir íslenskukunnáttu í atvinnuauglýsingum í meira mæli. Kannski er það vegna þess að fólk getur einfaldlega leyft sér það, sem er mögulega ein ástæðan fyrir því að útlendingum fjölgar hraðar á atvinnuleysisskrá en öðrum. En við sjáum áfram líkt og eftir hrun að búferlaflutningar til landsins eru að halda áfram, sem mögulega er vegna þess að þeir sem til að mynda eru að koma af stað nýjum verkefnum í byggingariðnaði, sem virðist hafa nóg að gera næstu árin, finnst einfaldlega þægilegra að ráða hópa gegnum aðila sem þeir þekkja erlendis,“ segir Karl og heldur áfram:

„Svo hefur fólk það einfaldlega betur hér en víða erlendis, svo einstaklingar sem hafa unnið sér inn bótarétt hér kjósa frekar að vera hérna áfram, þó það missi vinnuna. Ef fólk ætlar að njóta atvinnuleysisbóta hér eru mjög stífar reglur um að það eigi að vera á Íslandi í virkri atvinnuleit, en síðan getur fólk fengið allt upp í þriggja mánaða leyfi til að fara erlendis í atvinnuleit, og þá fer það oft í eigið heimaland og er þá á íslenskum bótum á meðan. Ef það gengur ekki geta þeir komið aftur hingað en þá hefur fólk þrengri möguleika á að fara aftur út í frekari leit.“

Konráð segir ástandið á heimsmörkuðum ekki benda sérstaklega til þess að mikil hætta sé á að við missum mikið af því fólki sem er að missa vinnuna úr landi. „Ef við horfum í kringum okkur sínum hvorum megin við Atlantshafið þá eru horfurnar ekkert sérstakar á vinnumarkaði þar. Það hjálpar okkur að halda í fólk svo það verði hérna áfram og nýti þekkingu sína hér á landi og taki þannig þátt í því að skapa störfin áfram. Þannig styður það við að þessi niðursveifla eða stöðnun sem við erum í nú verði eins stutt og lítil og hægt er,“ segir Konráð.

„Það er mikilvægt að þó að ástandið líti kannski ekkert sérstaklega vel út akkúrat núna þá má ekki gleyma því að við sem hagkerfi og þjóð erum einstaklega vel í stakk búin til að takast á við erfiða stöðu á bæði vinnumarkaði og í efnahagslífinu. Við erum með mikinn sveigjanleika og höfum áður komið okkur úr miklu erfiðari vandræðum, enda flestar undirstöður samfélagsins mjög traustar auk þess sem það er meira svigrúm bæði hjá fyrirtækjum í landinu og hjá hinu opinbera, sem og hjá Seðlabankanum en oft áður til að vega upp á móti þessu. Þannig að það er fullt af ástæðum til þess að vera bjartsýn þrátt fyrir allt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .