Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefur verið lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2014. Hún segir mikilvægt að ýta undir fjölbreytni innan lögreglunnar til að mæta því hvernig samfélagið er samsett. Eins og sakir standa eru konur aðeins í kringum 15% af lögreglumönnum – 85% eru karlar. Þetta segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. „Konurnar eru aftur á móti fleiri þegar kemur að öðru starfsfólki lögreglunnar.

Við þurfum að bregðast við áskorunum sem þessu tengjast og halda áfram að bæta vinnustaðamenninguna hjá okkur. Við fengum mjög slæma útkomu í könnun, sem Finnborg Salóme Steinþórsdóttir gerði árið 2013, þar sem kom fram að einelti og áreitni væri mjög útbreidd innan embættisins. Þá bæði einelti meðal karlanna og áreitni gegn konum. Við erum að fylgja þessu eftir og bæta úr með því að gera fleiri kannanir og styðja starfsfólkið svo það sitji allir við sama borð,“ segir Sigríður Björk.

Úr skattinum í lögregluna

Sigríður Björk byrjaði ferilinn sem skattstjóri Vestfjarðaumdæmis árið 1996, þá 27 ára gömul, og í kjölfarið fór hún í framhaldsnám til Svíþjóðar.

„Í kjölfarið varð ég sýslumaður og lögreglustjóri á Ísafirði 2002. Varð svo að- stoðarríkislögreglustjóri 2006 til 2008, og lögreglustjóri á Suðurnesjum 2009, þangað til 2014 þegar allir lögreglustjórar og sýslumenn landsins voru fluttir milli embætta,“ segir hún.

Hún segir að áhugi sinn á starfi lögreglunnar hafi komið eftir að hún byrjaði að vinna og að í upphafi hafi hún haft meiri áhuga á stjórnsýsluhlutanum. „En svo varð ég mjög áhugasöm um lögregluna og sérhæfði mig í löggæslu og tók stjórnunarnám á þessu sviði. Mér fannst starfsemi lögreglunnar gífurlega spennandi, þar sem hún hefur svo ólíkum hlutverkum að gegna. Við erum þjónustustofnun sem á að þjóna almenningi á sama tíma og við erum með valdbeitingarhlutverk. Síðan erum við oft að koma inn til fólks á verstu stundum þess, svo það skiptir gífurlega miklu máli hvernig við bregðumst við. Þessi heimur er að breytast svo hratt og tæknin er að breyta glæpum og við verð- um að fylgjast með og gera breytingar á skipulagi löggæslunnar.

Það eru að verða miklar breytingar í okkar stétt á næstunni, sama hvort okkur líkar betur eða verr. Við getum ekki hallað okkur aftur og sagt: „Svona höfum við alltaf gert þetta, því að samfélagið breytist svo hratt,“ bætir hún við.

Fleiri konur en karlar í náminu

Þegar lögreglustjórinn er spurð að því hvað hún telji hafa breyst á tíma sínum hjá lögreglunni varðandi kynjamál, þá segir hún það vera mjög margt: „Ég finn fyrir viðhorfsbreytingum.

Sérstaklega í tengslum við þau sérstöku verkefni sem við höfum verið með, þá sérstaklega ofbeldisverkefni, sem tengjast kynbundnu ofbeldi. Ég finn breytingu þar. Síðan er mjög ánægjuleg þróun í lögreglunáminu hjá okkur, sem nú er kennt á háskólastigi. Þar eru fleiri konur en karlar skráðir, eða 27 konur og 21 karl. Þetta hangir einnig á því sem við viljum sjá, sem er aukin fjölbreytni. Við erum að þjóna samfélaginu öllu, við erum ekki bara að fjölga konum til að fjölga konum, heldur verðum við að mæta því hvernig samfélagið er samsett. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að vinnustaðir með jafnari kynjahlutfalli eru betri vinnustaðir.

Viðtalið við Sigríði Björk má lesa í heild sinni í sérblaðinu Áhrifakonur. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.