Frá því í janúar ársins 2014 hefur verðlag íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hækkað um tæplega fjórðung í erlendri mynt. Var það í sumar hærra en það hefur áður mælst að því er fram kemur í Hagsjá greiningardeildar bankans.

Segir bankinn að verðið hafi náð tímabundnu hámarki í kringum áramótin 2011 og 2012, en uppfrá því hafi verðið tekið að lækka og náð svo tímabundnu lágmarki í janúar 2014, eftir 6% lækkun á tveimur árum. Hækkunin kemur helst til af hækkunum á verðlagi botnsfisks, en sú hækkun kemur á sama tíma og heimsmarkaðsverð á kjöti hefur hækkað.

Miklar sveiflur í heimsmarkaðsverði á kjöti

Segir greiningardeildin að töluverð tengsl séu milli verðs á kjöti og botnfiskafurða frá Íslandi, og hafi verðþróunin þarna á milli fylgst að, þó nokkurra mánaða töf sé á milli.

Samt sem áður segir deildin að áhrifin séu ekki það mikil að hægt sé að fullyrða að verðið stýrist af heimsmarkaðsverði kjöts. Þannig einkenni sveiflur verðþróun kjöts á heimsmörkuðum en verð botnfisks frá Íslandi, og því hafi komið tímabil þar sem verð á kjöti hefur gefið mikið eftir en verð á botnfiski haldið velli.

Sem dæmi nefnir hagsjáin að verð á kjöti hafi á einu og hálfu ári frá því í ágúst 2014 lækkað um tæplega þriðjung meðan verð á botnfiski hafi á sama tíma hækkað um 8,2%.