Ferðaþjónustufyrirtækið Arcanum fjallaleiðsögumenn stefndi í gjaldþrot í sumar án hlutafjáraukningar frá eigandanum. Þetta kom fram í kynningu starfsmanna Íslandsbanka, á hluthafafundi Eldeyjar, móðurfélags Arcanum fjallaleiðsögumanna.

Eldey var stofnuð árið 2015 um fjárfestingar lífeyrissjóða, Íslandsbanka og einkafjárfesta í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Alls eiga lífeyrissjóðir um 70% hlut í Eldey en þar af á Birta ríflega 20% hlut. Þá á Íslandsbanki um 10% en Eldey er rekið af Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka. Eldeyvinnur nú að sameiningu við Kynnisferðir þar sem ráðgert er að Eldey fari með 35% hlut líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Sjá einnig: 800 milljónir í nýjan risa

Á hluthafafundinum var samþykkt 500 milljóna króna hlutafjáraukning tengd samrunanum til að styrkja rekstur félaga sem Eldey hefur fjárfest í. Á fundinum kom fram að önnur félög sem Eldey á í ættu líklega að standa af sér hremmingarnar án hlutafjáraukningar. Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, segir að félögin sem Eldey á hlut í njóti góðs af því að hafa öll verið fremur skuldlétt þegar faraldurinn skall á.

Búið er að auka hlutafé Arcanum fjallaleiðsögumanna um ríflega 100 milljónir króna og heimild er til að auka það um hátt í 150 milljónir til viðbótar ef þörf þykir.

Ríkisstuðningur lengi að skila sér

Hrönn bendir á að fyrirtækið hafi verið tekjulaust en þurft að greiða laun á uppsagnarfresti síðastliðna tvo mánuði sem og annan rekstrarkostnað. Ríkisstuðningur við laun á uppsagnarfresti hafi enn ekki verið greiddur út. „Það bjóst enginn við því að það tæki svona langan tíma fyrir ríkið að greiða styrk vegna launagreiðslna á uppsagnarfresti. Þetta hefur verið dágóð fjárhæð sem fyrirtækin hafa þurft að standa undir án tekna.“

Á milli 80 og 90 manns hafi starfað hjá Arcanum fjallaleiðsögumönnum. Þeim hafi nær öllum verið sagt upp og séu á uppsagnarfresti. Verið sé að vinna úr stöðunni og vonandi verði hægt að endurráða sem flesta. „Við höfum gert upp við alla okkar birgja, greitt út laun og skuldum engin opinber gjöld. Félagið er eins hreint og beint og hægt er.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .