Fjarðarkaup er efst í meðmælavísitölu MMR en viðskiptavinir Fjarðarkaupa reyndust líklegri til að mæla með þjónustu Fjarðarkaupa en viðskiptavinir annarra fyrirtækja á Íslandi. Þetta eru niðurstöður nýlegrar könnunar MMR á meðmælavísitölu 85 þjónustufyrirtækja á einstaklingsmarkaði. Þá hefur heldur dregið úr því að viðskiptavinir Costco mæli með fyrirtækinu.

Meðmælavísitalan byggir á Net Promoter Score aðferðafræðinni en meðmælavísitalan byggir, líkt og nafnið bendir til, á mælingum á því hversu líklegir einstaklingar eru til að mæla með (eða hallmæla) fyrirtækjum sem þau hafa átt viðskipti við. Niðurstöður mælinganna gefa því góða tilfinningu fyrir stöðu fyrirtækja á íslenskum markaði enda hafa rannsóknir sýnt að meðmæli eru stór áhrifaþáttur í ákvörðunartöku neytenda um hvort stofna eigi til viðskiptasambands við fyrirtæki.

Toyota, IKEA og Nova bera af í sínum atvinnugreinum en fyrirtækin hafa, ásamt Fjarðarkaupum, verið fastagestir á lista 10 efstu fyrirtækja landsins frá því að mælingar á meðmælavísitölunni hófust árið 2014. Að sama skapi virðist hrifning landsmanna af Netflix streymisveitunni ekkert minnka - en eins og við greindum frá í sumar sögðust tveir af hverjum þremur Íslendingum vera með aðgang að þjónustunni á heimilum sínu. Þá komu vefmiðasölurnar Tix.is og Miði.is sterkar inn í ár og komust inn á lista meðal hinna 10 efstu en vaxandi þjónusta fyrirtækjanna á vefmiðasölumarkaði hefur greinilega lagst vel í landsmenn.