Verðbólguálag á íslenskum skuldabréfamarkaði hefur ekki verið hærra í langan tíma.  Eins og lesa má úr meðfylgjandi grafi er 5 ára verðbólguálag komið í 5% og stendur 10 ára álagið í 4,4%. Að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins er erfitt að túlka aftengingu álagsins frá verðbólgumarkmiði svo langt fram í tímann öðruvísi en svo að markaðurinn sé að missa trú á Seðlabankann. Framvirkt verðbólguálag - það álag sem leiða má út að markaðurinn vænti að standa frammi fyrir að tilteknum tíma liðnum - er nú komið í 3,5% sem gefur einnig sterka vísbendingu um að kjölfesta verðbólguvæntinga hafi minnkað. Þá kunna framvirkir vextir á markaði að gefa til kynna að markaðsaðilar reikni með stýrivöxtum í kringum 5% á næsta ári.

Framkvæmd peningastefnunnar krefst þess að til staðar séu áreiðanlegar upplýsingar um verðbólguvæntingar í ljósi þess að þær eru stór ákvörðunarþáttur verðbólgu. Það er því mikilvægt að væntingar um þróun verðbólgu liggi ekki langt frá verðbólgumarkmiðinu.

Katrín Ólafsdóttir, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir þetta ekki merki um að markaðurinn sé að missa trú á Seðlabankann. „Verðbólguvæntingar eru að vaxa en það er eðlilegt miðað við horfurnar. Það er ákveðinn innlendur þrýstingur en mesti þrýstingurinn kemur að utan gegnum miklar hækkanir á hrávörumörkuðum," segir Katrín. Hún segir útlit fyrir að þessar ytri aðstæður séu erfiðar og að horfur séu á hárri verðbólgu næstu 2-3 árin. „Hins vegar er þetta ekki staða sem Seðlabankinn getur átt við," segir Katrín.

Samspil framboðs og eftirspurnar

Hins vegar er líka mikilvægt að líta á samspil framboðs og eftirspurnar á markaðnum. Útboð Lánamála ríkisins á óverðtryggðum ríkisbréfum, RIKB 42 0217, fór fram föstudaginn 8. apríl og voru samþykkt tilboð að nafnverði 21,8 milljarðar króna. Þessi viðskipti urðu þess valdandi að ávöxtunarkrafan á RIKB 42 0217 lækkaði nokkuð.

Stefán Helgi Jónsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, bendir á að með útboðinu hafi lánamál klárað um helminginn af útgáfuáætlun sinni fyrir árið í heild. „Mikil eftirspurn í útboði lánamála á föstudaginn kom markaðnum hressilega á óvart sérstaklega í ljósi þess að síðasta vika hafði einkennst af miklum fjölda skuldabréfaútboða þar sem þátttaka var mismikil," segir Stefán Helgi.

Arðgreiðslur úr Landsbankanum og Landsvirkjun og salan á Íslandsbanka gæti hins vegar dregið úr þörf ríkisins til útgáfu skuldabréfa, að því leyti að tekjustreymi hafi verið umfram áætlanir.

Líkt og fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku styrktist krónan um 1% í kjölfar útboðs Lánamála ríkisins þann 8. apríl. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má rekja styrkinguna til þess að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skuldabréfaútboðinu. Seðlabankinn brást við styrkingunni samdægurs með því að kaupa gjaldeyri fyrir 18 milljarða króna á gjaldeyrismarkaðnum, en það eru stærstu kaup Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á einum degi frá árinu 2016.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .