Þrátt fyrir að innflæði vegna nýfjárfestingar erlends fjármagns hafi aukist á síðustu misserum hefur útflæði þess aukist töluvert hraðar og hefur raunar aldrei verið hærra yfir 12 mánaða tímabil miðað við gögn sem ná til ársbyrjunar 2015.

Hrein skráð nýfjárfesting erlends fjármagns að undanskilinni endurfjárfestingu, sem er innflæði að frádregnu útflæði, nam um 28,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs en var um 30,4 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Innflæði á tímabilinu nam um 68,5 milljörðum króna og jókst um 28,6 milljarða milli ára en á sama tímabili nam útflæði 39,7 milljörðum og jókst um 30,1 milljarð frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum frá Seðlabanka Íslands. Þess má geta að á sama tímabili nam verðbréfafjárfesting innlendra aðila á erlendri grundu, að stærstum hluta lífeyrissjóða, um 131 milljarði króna.

Þegar litið er yfir síðustu 12 mánuði sést að útflæðið hefur aukist talsvert meira. Hrein skráð nýfjárfesting nam 20,2 milljörðum á síðustu 12 mánuðum en var 52,1 milljarður á sama tímabili fyrir ári síðan. Innflæði á tímabilinu nam 71,7 milljörðum og jókst um 8,8 milljarða en útflæðið nam 51,5 milljörðum króna og jókst ríflega fjórfalt meira eða um 36,9 milljarða króna. Þá var hrein nýfjárfesting neikvæð um samtals 8,1 milljarð í ágúst og september. Þess ber að geta að hér er eingöngu um útflæði erlends fjármagns að ræða en ekki útflæði vegna fjárfestinga innlendra aðila erlendis.

Gæti horft til betri vegar

Fjárfestingar í hlutabréfum hafa staðið undir ríflega 60% af innflæði það sem af er ári en það nam 42,7 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins og jókst um 27 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Útflæði nýskráningar erlends fjármagns er ekki sundurliðað í gögnum Seðlabankans en þó kemur fram í Peningamálum að það hafi að mestu verið vegna sölu á skráðum hlutabréfum. Sé litið 12 mánuði aftur í tímann nemur innflæði inn á hlutabréfamarkaðinn 45,4 milljörðum en var 31,1 milljarður á sama tímabili fyrir ári síðan. Þrátt fyrir að hlutfall erlendra fjárfesta á hlutabréfamarkaði hafi að einhverju leyti aukist frá losun fjármagnshafta er það þó töluvert undir því sem þekkist í nágrannalöndunum. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið um 40% en er einungis um 15% hér á landi en er þó breytilegt þar sem bæði Arion banki og Marel eru tvískráð.

Hvað varðar hlutabréfamarkaðinn gæti þó horft til betri vegar. Í september kom markaðurinn inn í vísitölumengi FTSE og þá eru bundnar vonir við að hann muni einnig koma inn í mengi MSCI í maí á næsta ári. Innkoma íslenska markaðarins í vísitölur áðurnefndra fyrirtækja gera það að verkum að vísitölusjóðir sem elta vísitölurnar þurfa að fjárfesta í íslenskum hlutabréfum. Þá kveða fjárfestingarheimildir margra sjóða á um að þeir megi ekki fjárfesta í fjármálagjörningum sem ekki eru hluti af alþjóðlegri vísitölu og ætti innkoma markaðarins því að opna dyr fyrir marga erlenda sjóði til að fjárfesta á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .