Alls hefur félagið Fea ehf., sem varð eini hluthafi Play fyrr á þessu ári, fengið 155 milljónir króna í lánsfé frá þremur aðilum. Þar af skuldar Fea Kjartani Páli Guðmundssyni 70 milljónir króna, Rea ehf. 70 milljónir króna og Global fjárfestingafélagi ehf. 15 milljónir. Í samtali við Viðskiptablaðið staðfestir Skúli Skúlason, eini hluthafi Fea og því um leið eigandi Play, að lán þessi hafi verið fengin til þess að fjármagna rekstur Play.

Segir hann að það komi í ljós þegar nær dregur hverjir séu í raun og veru á bak við félagið en um sé að ræða „breiðan hóp“. Á meðan Play er að vinna í að leggja lokahönd á fjármögnun rekstursins vill hann ekki tjá sig um einstaka fjárfesta, sundurliðun á þeim hópi mun koma í ljós síðar.

Töluverð óvissa hefur ríkt um hvernig eigendahópur Play verður að lokum en það liggur fyrir að hluthafar félagsins verða fleiri en einungis Skúli. „Þetta verður ekkert leyndarmál í sjálfu sér, þetta kemur bara í ljós þegar allt er frágengið.“ Segir hann enn fremur að hópur fjárfesta muni koma til með að tengjast saman í gegnum Fea.

Áðurnefndur Kjartan Páll er framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins K&G sem hann rekur ásamt bróður sínum. Félagið Rea, sem lánaði Fea sömuleiðis 70 milljónir króna, er að mestu í eigu Skúla og systur hans, Guðbjörgu Astrid Skúladóttur, sem hvor um sig eiga 47,5% hlut. Sigþór Kristinn Skúlason á hinn hluta Fea eða fimm prósent. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins en aðalstarfsemi þess er leiga atvinnuhúsnæðis, samkvæmt ársreikningi þess.

„Þetta er lánsfé sem er að renna inn í Play á þessum tímapunkti,“ segir Skúli spurður um hvað skýri lánveitingu Global fjárfestingafélags. Samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra er Theodór Siemsen Sigurbergsson eigandi Global en hann er sömuleiðis framkvæmdastjóri endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thorton á Íslandi og skráður sem endurskoðandi Fea ehf. og Rea ehf.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .