Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,45% í eins milljarðs veltu Kauphallarinnar í dag. Íslenska krónan hefur veikst gagnvart flestum helstu gjaldmiðlum heims það sem af er degi.

Mesta veltan var með bréf Arion banka sem hækkuðu um 1,9% í 399 milljóna króna viðskiptum en bréf bankans standa nú í 65,1 krónu á hlut. Næstmesta veltan var með bréf Marels sem lækkaði um 0,14% í 144 milljóna króna viðskiptum.

Festi hækkaði um 1,5% í 70 milljóna króna veltu og standa bréf félagsins í 133,5 krónum á hlut. Félagið hækkaði einnig um 2,3% í gær. Fjárfestar virðast því taka vel í ráðningu á Ástu Sigríði Fjeldsted sem framkvæmdastjóra Krónunnar sem var tilkynnt í gær.

Fasteignafélögin Eik og Reitir hækkuðu bæði í dag. Eik hækkaði um 1,6% í 28 milljóna króna veltu og Reitir um 0,6% í 102 milljóna króna veltu. Gengi Regins stóð óbreytt í 16,95 krónum á hlut í 56 milljóna króna viðskiptum.

Íslenska krónan veiktist um 0,4% gagnvart evrunni, um 0,6% gagnvart dollaranum og 0,7% gagnvart sterlingspundinu í dag.