Hugbúnaðarfyrirtækið Dineout, sem heldur úti heildstæðum hugbúnaðarlausnum fyrir veitingastaði og hótel, hefur tryggt sér fjármögnun frá miðasölufyrirtækinu Tix EU sem kemur inn sem hluthafi. Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri og einn stofnenda Dineout, segir að samstarfið muni hjálpa fyrirtækinu í útrás sinni á erlenda markaði.

„Þetta samstarf mun styrkja okkur gríðarlega, bæði fjárhagslega og einnig er þetta frábær stökkpallur fyrir útrásina. Ísland hefur alltaf verið hugsað sem prufumarkaður fyrir útrás sem er í raun brostin á,“ segir hún.

Lausnir Dineout voru teknar upp á veitingastöðum á Spáni rúmum tveimur mánuðum áður en Covid-faraldurinn hófst. Inga Tinna segir að sú vegferð sé komin á fullt skrið á ný og að lausnir fyrirtækisins fari inn á hótel og við golfvelli á Spáni. Þá er innreið Dineout á norska markaðinn hafin og óperuhúsið í Stavanger er komið í samstarf við fyrirtækið. Næst á dagskrá er að koma sér inn á markaðssvæðin sem Tix hefur rutt sér til rúms á. Tix selur í dag miða í sjö löndum í Evrópu en einnig eru tvö önnur væntanleg á næstunni.

Nú er unnið að því að tengja saman lausnir Dineout og Tix. Það mun meðal annars felast í því að í hvert skipti sem viðskiptavinir kaupa miða í gegnum Tix, fá þeir meðmæli um veitingastaði í nágrenninu sem hægt er að panta borð á í gegnum Dineout fyrir og eftir viðburði. Einnig er unnið að heildstæðu kerfi sem samanstendur af miðasölu-, kassa- og matarpöntunarkerfi fyrir tónlistar- og bíóhús, en sú lausn yrði sú eina sinnar tegundar í Evrópu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Breyting á nýtingu vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood hafði í för með sér virðisrýrnun þeirra.
  • Fjallað um nýskráningar bifreiða þar sem rafmagnið er í mikilli sókn.
  • Nokkuð hefur reynt á áhrif faraldursins á samninga fyrir dómstólum en dómar hafa ekki fallið á einn veg.
  • Rætt við Kjartan Örn Sigurðsson um kaup SRX á Ormsson og hvað framtíðin ber í skauti sér.
  • Sveitarfélag hefur stefnt Þjóðskrá og Landsvirkjun þar sem það telur fasteignamat virkjunar ekki í samræmi við lög.
  • Rætt við Kristínu Soffíu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandic Startups um viðskiptahraðalinn Hringiðu.
  • Týr fjallar um skoðanaskipti í háskólasamfélaginu og hrafnarnir eru sá sínum stað.
  • Þá mætir fjölmiðlarýnir aftur eftir sumarfrí og greinir fréttaflutning síðustu daga.