Seth Klarman er bandarískur fjárfestir. Hann er sjóðsstjóri Baupost Group, vogunarsjóðs sem stofnsettur var árið 1982. Hann stýrir 29 milljörðum Bandaríkjadala eða tæplega 3.600 milljörð- um íslenskra króna. Klarman er þekktur í fjármálaheiminum einna helst fyrir störf sín sem sjóðsstjóri Baupost Group, sem hefur aflað honum talsverðra tekna – hann er metinn á 1,38 milljarða Bandaríkjadala eða 171 milljarð íslenskra króna – en auk þess hefur hann vakið talsverða athygli fyrir ritstörf sín.

Klarman, eins og venjan er meðal sjóðsstjóra, skrifar hluthöfum í sjóði sínum árlegt bréf, en það eru ekki þau ritstörf sem um ræðir hér – heldur bók sem hann skrifaði árið 1991 sem ber nafnið Margin of Safety: Risk-Averse Value Investing Strategies for the Thoughtful Investor. Bókin var gefin út í aðeins 5.000 eintökum. Í fyrstu hlaut bókin ekki mikla athygli, sem Klarman kennir markaðssetningu bókarinnar um, en með tíð og tíma varð hún einstaklega vinsæl meðal sérstaks hóps fólks – grunngreiningarfjárfesta.

Arðbær fjárfesting

Verð á hvert eintak bókarinnar rauk upp og nú fæst notað eintak af bókinni á heila 1.600 Bandaríkjadali – 200 þúsund krónur – á vefuppboðssíðunni Ebay. Nýtt eintak kostar eitthvað í kringum 2.900-3.000 dali eða 372 þúsund krónur. Upphaflega kostaði eintakið 25 dali í bókabúðum og því mætti segja að ávöxtun bókarinnar frá útgáfu hennar til þessa dags, sé miðað við verð nýs eintaks, sé 11.900% – ekki amaleg fjárfesting fyrir bók um fjárfestingar.

Upprunalegir kaupendur bókarinnar sem hangið hafa á eintaki sínu til þessa dags hafa eflaust séð kaldhæðnina í því að hafa keypt bók um fjárfestingaherkænsku sem síðar varð ein þeirra allra besta fjárfesting, í prósentum talið, frá upphafi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.