Lífeyrissjóðurinn Lífsverk hefur fjárfest fyrir 50 milljónir króna í geoSilica. Þar með bætist lífeyrissjóðurinn í hluthafahóp geoSilica og eignast 6,7% í nýsköpunarfyrirtækinu, sem verðmetur félagið á tæplega 750 milljónir króna.

Fida Abu Libdeh og Burkni Pálsson stofnuðu það árið 2012 en fyrirtækið, sem er á Suðurnesjum, framleiðir kísilríkt fæðubótarefni úr affallsvatni jarðhitavirkjunar. Í september lögðu nýir hluthafar 40 milljónir króna til fyrirtækisins fyrir um 6% hlut.

„Þetta er mjög spennandi nýsköpunarfyrirtæki sem hefur skýra framtíðarsýn og öfluga stjórnendur. Við teljum að þetta sé góð langtímafjárfesting fyrir sjóðinn," hefur Morgunblaðið eftir Jóni L. Árnasyni, framkvæmdastjóra Lífsverks.