Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jerome Powell, segir að seðlabankinn muni veita hagkerfi landsins áframhaldandi fjárhagsaðstoð „eins lengi og þörf er á.“ Þetta verður gert til þess að tryggja eins fljótan efnahagsbata og mögulegt er og til þess að takmarka þann skaða sem veirufaraldurinn kann að hafa í för með sér.

Segir hann að efnahagur Bandaríkjanna hafi upplifað efnahagsbata en að það ríki mikil óvissa. Samkvæmt frétt CNBC geta úrræði seðlabankans veitt um tvo billjón dollara á margvíslegan máta inn í hagkerfið.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur nú þegar lækkað stýrivexti í 0 til 0,25 prósentustig og sett á laggirnar þrettán lána- og lausafjárúrræði til þess að styðja við markaði vestanhafs.