Þrjú sveitarfélög eru yfir leyfilegu skuldaviðmiði, sem þýðir að þann 1. janúar síðastliðinn skulduðu þau meira en 150% af reglulegum tekjum sínum. Þetta eru Reykjanesbær, Fljótsdalshérað og Sandgerðisbær. Óhætt er að segja að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri sveitarfélaga síðustu ár því eftir rekstrarárið 2015 voru sjö þeirra yfir leyfilegu skuldaviðmiðið og árið þar á undan voru 13 sveitarfélög yfir viðmiðinu.

Í sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi árið 2012, var lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga mætti ekki fara yfir 150 prósent. Ákveðinn aðlögunartími var gefinn og höfðu sveitarfélög allt að 10 ár til að laga reksturinn að þessu viðmiði.

Árbók sveitarfélaga, sem gefin er út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kom út á dögunum en þar er að finna samantekt á fjárhagsstöðu allra sveitarfélaga landsins fyrir rekstrarárið 2016.

Nauðsynlegt er að taka fram að skuldaviðmið er ekki það sama og skuldahlutfall. Tiltölulega einfalt er að reikna skuldahlutfall en það er fundið út með því að deila tekjum í skuldir og skuldbindingar. Skuldaviðmiðið er hins vegar reiknað út af Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) og hefur Viðskiptablaðið fengið þá útreikninga. Þegar skuldaviðmiðið er reiknað er búið að taka tillit til nokkurra atriða í rekstri sveitarfélaga, sem koma til frádráttar á skuldum og skuldbindingum. Þegar kemur að útreikningum á skuldaviðmiði þá eru alltaf teknar saman annars vegar tekjur og hins vegar skuldir og skuldbindingar í bæði A- og B-hluta. Þegar fjallað er um þessari stærðir í úttekt Viðskiptablaðsins er því átt við samantekin reikningsskil úr A- og B-hluta.

skuldaviðmið 2016
skuldaviðmið 2016

Rofar til í Reykjanesbæ

Líkt og í fyrra stendur Reykjanesbær verst fjárhagslega. Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins (A- og B-hluti) námu 44,5 milljörðum króna um síðustu áramót sem jafngildir  ríflega 2,7 milljónum króna á hvern íbúa. Til samanburðar námu skuldirnar 43,6 milljörðum króna árið á undan eða 1. janúar 2016. Skuldaviðmið Reykjanesbæjar um áramótin var 211%, sem þýðir að skuldirnar, að teknu tilliti til ákveðinna undanþága sem koma til frádráttar, námu 211% af tekjum. Þrátt fyrir að fjárhagsstaða bæjarins sé ekki góð hefur hún batnað nokkuð undanfarin ár. Eftir rekstrarárið 2015 var skuldaviðmiðið 231%, árið 2014 var það 234% og 255% árið 2013. Á fimm árum hefur skuldaviðmiðið því lækkað um 44 prósentustig.

Næstverst er staðan í Fljótsdalshéraði á Austurlandi. Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu 8,3 milljörðum króna um síðustu áramót, sem jafngildir því að hver íbúi skuldi tæplega 2,4 milljónir króna. Skuldastaðan batnaði á milli ára því eftir rekstrarárið 2015 námu skuldir og skuldbindingar 8,8 milljörðum. Skuldaviðmið Fljótsdalshérað er nú 181% en var 207% eftir rekstrarárið 2015. Frá 2013 hefur skuldaviðmiðið lækkað úr 238% í 181% eða um 57 prósentustig.

Síðasta sveitarfélagið, sem er yfir lögbundnu 150% skuldaviðmiði, er Sandgerðisbær. Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu 3,5 milljörðum króna eftir síðasta rekstrarár eða rétt ríflega 2 milljónum króna á hvern íbúa. Samanborið við rekstrarárið 2015 þá stóðu skuldirnar nokkurn veginn í stað. Skuldaviðmið Sandgerðisbæjar var 161% um síðustu áramót samanborið við 189% ári áður. Frá 2013 hefur skuldaviðmiðið lækkað úr 227% eða um 66 prósentustig.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .