Joe Biden Bandaríkjaforseti mun síðar í dag kynna tveggja billjóna dollara innviðaáætlun, eða sem samsvarar yfir 250 billjónum íslenskra króna, sem snýr að vega- og brúaumbótum, auknu aðgengi að háhraða nettengingu og fjármögnun rannsóknar og þróunar. Samhliða mun Biden leggja til víðtækar skattahækkanir á fyrirtæki til að fjármagna innviðaáætlunina. Þetta kemur fram í frétt WSJ .

Biden mun kynna fyrirætlanir sínar síðar í dag í ræðu í Pittsburgh og er búist við að hann rökstyðji þær með því að fjárfestingin sé nauðsynleg í samkeppni Bandaríkjanna við Kína og til að takast á við loftslagsbreytingar.

Innviðaáætlun þessi er annar tveggja hluta efnahagsáætlunar forsetans sem hann vonast til að koma í gegnum þingið á næstu misserum. Síðari hluti áætlunarinnar, sem kynntur verður í apríl, snýr einkum að barna-, heilbrigðis- og menntamálum.

Þess er að vænta að fyrirætlanir forsetans muni mæta harðri andstöðu repúblikana, þá sérstaklega fyrirhugaðar skattahækkanir á fyrirtæki. Einnig er búist við að einhverjir demókratar muni hafa áhyggjur af auknum ríkisútgjöldum á meðan öðrum demókrötum kunni að þykja að fyrirætlanir forsetans gangi ekki nógu langt.

Hvíta húsið mun hafa sagt tillögur Biden auka útgjöld um 2 billjónir dollara á átta ára tímabili og verði fjármagnaðar yfir 15 ára tímabil með því að hækka fyrirtækjaskatt úr 21% í 28% og með því að hækka skatta á erlendar tekjur fyrirtækja.