4,6 milljarða króna fjármagnskostnaður Ölgerðarinnar, sem til kominn var vegna fjármögnunar á kaupum á félaginu, teljast ekki frádráttarbær kostnaður samkvæmt dómi Hæstaréttar, sem staðfesti dóm Héraðsdóms og úrskurði yfirskattanefndar og Ríkisskattstjóra, í málinu.

Dómur Hæstaréttar í dag markar endalok baráttu Ölgerðarinnar við skattayfirvöld um að fá að telja ofangreind fjármagnsgjöld til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar, að hluta til eða í heild sinni.

Forsaga málsins er sú að í mars 2007 keypti Límonaði ehf. hlut í Ölgerðinni, Daníel Ólafssyni ehf. og fasteignafélaginu G-7 ehf. fyrir rúma 5,7 milljarða króna. Kaupin voru fjármögnuð með eigin fé Límonaðis og 3,8 milljarða króna láni frá Kaupþingi.

Í framhaldinu sameinuðust Ölgerðin, Límonaði og Daníel Ólafsson þegar hin síðarnefndu félög runnu inn í Ölgerðina. Við samrunann tók Ölgerðin yfir lánaskuldbindingar Límonaðis og gjaldfærði í kjölfarið fjármagnskostnað af lánunum í skattaskilum sínum.

Ríkisskattstjóri féllst hinsvegar ekki á þá niðurstöðu, og endurákvarðaði opinber gjöld áranna 2008 til og með 2012, á þeim grundvelli að sá fjármagnskostnaður sem féll á Ölgerðina vegna yfirtökunnar á Límonaði teldist ekki frádráttarbær kostnaður. Lánin hafi verið tekin til að fjármagna kaupin á hlutunum í Ölgerðinni og Daníel Ólafssyni, og því ekki tengst rekstri Ölgerðarinnar sem slíkum.

Frádráttarbær fjármagnskostnaður var því lækkaður um 253 milljónir 2008, 2,1 milljarð 2009, 1,4 milljarð 2010, 381 milljón 2011, og 398 milljónir 2012, eða samtals tæplega 4,6 milljarða króna.