Kjartan Magnússon stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir ótrúlegan spuna vera viðhafðan í kringum endurkaup Orkuveitunnar á eigin húsi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær keypti Orkuveitan húsið á samtals 5,5 milljarða, eftir að hafa selt það á 5,1 milljarð.

„Þegar maður les fréttatilkynninguna frá OR gæti maður haldið að þessi furðulegi fjármálagerningur hafi verið snjall leikur, sem hann var auðvitað ekki,“ segir Kjartan en hann vill að kannað verði til hlítar hvort skráður eigandi hússins undanfarið ár eigi ekki að axla meiri ábyrgð á viðhaldskostnaðinum vegna skemmdanna á húsinu.

„Ég samþykkti ekki „söluna“ á OR-húsinu til umrædds fasteignafélags árið 2013 og gerði þá alvarlegar athugasemdir við aðferðina. Ég samþykkti heldur ekki í gær að „kaupa“ húsið til baka og hef efasemdir um þá aðgerð, ekki síst vegna þess í hvaða ásigkomulagi húsið er.

Athyglisvert er að bera saman „söluverð“ hússins fyrir fjórum árum þegar menn töldu eignina vera í toppstandi og „kaupverðið“ nú þegar menn vita að eignin er stórgölluð.

Furðulegur fjármálagerningur

Hvernig sem dæmið er skoðað er ljóst að þessi fjármálagerningur er mjög furðulegur og hefur verið mjög kostnaðarsamur fyrir Orkuveituna og eigendur hennar, þ.e. almenning í Reykjavík og öðrum eigendasveitarfélögum Orkuveitunnar.“

Kjartan segir að ábyrgðin af þessu öllu saman eigi þeir flokkar sem samþykktu söluna á sínum tíma, það er borgarstjórnarmeirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar, auk fulltrúa Vinstri grænna sem síðan hafa komið inn í borgarstjórnarmeirihlutann ásamt Pírötum.

Lagði Kjartan fram eftirfarandi bókun á stjórnarfundi OR í gær vegna Orkuveituhússins:

„Árið 2013 „seldi“ Orkuveita Reykjavíkur húsnæði sitt að Bæjarhálsi fyrir 5.100 milljónir króna sem nemur 5.467 milljónum króna að núvirði miðað við neysluverðsvísitölu.

Nú, réttum fjórum árum síðar, er húsnæðið keypt aftur á 5.516 milljónir króna. Á þessu fjögurra ára tímabili hafa leigugreiðslur af húsinu numið 906 milljónum króna,“ segir Kjartan í bókuninni en hann segir að við þetta bætist áfallinn kostnaður vegna skemmda og viðgerða á vesturálmu OR-hússins sem nemur nú 470 milljónum króna.

„„Salan“ 2013 fór fram samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta borgarstjórnar, þ.e. fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu ekki umræddan gjörning þar sem þeir töldu mikinn vafa leika á að um raunverulega sölu væri að ræða enda fól „sölusamningurinn“ jafnframt í sér leigu Orkuveitunnar á húsinu til 10-20 ára.

Þar sem Orkuveitan hefur auk leigu greitt rekstrarkostnað og ábyrgð á viðhaldi hússins síðan „salan“ átti sér stað verður að líta svo á að umræddur sölu- og leigusamningur við Foss sé í raun lánasamningur þar sem leigugreiðslur eru ígildi vaxtagreiðslna.

„Söluverð“ hússins árið 2013 var langt undir endurstofnverði en heildarbyggingarkostnaður við Orkuveituhúsið nemur um 11,4 milljörðum króna á núgildandi verðlagi.

Þá eru vaxtakjör á samningnum óhagstæð miðað við þau kjör sem Reykjavíkurborg og Orkuveitan njóta á lánum sínum þannig að segja má að með honum hafi Orkuveitan í raun verið að taka dýrt lán.

Ljóst er að þessi viðskipti hafa verið óhagstæð fyrir Orkuveituna óháð þeim skemmdum á húsinu sem nú hafa verið leiddar í ljós. Enginn kostur virðist vera góður í þeirri stöðu sem nú er kominn upp.

En í ljósi þess taps sem Orkuveitan hefur orðið fyrir vegna hins furðulega fjármálagjörnings frá árinu 2013 verður þó að telja æskilegt að kannað sé til hlítar hvort það fasteignafélag, sem er nú skráður eigandi hússins og hefur haft af því tekjur undanfarin ár, eigi ekki að axla meiri ábyrgð á kostnaði vegna óhjákvæmilegra viðgerða og endurbóta á því en ráð er gert fyrir samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.“