Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, varpar upp spurningunni: „ Má fjármálaráðherra hafna krónunni ?“ í pistli í Fréttablaðinu. Þar segir að fjármálaráðherra geti hafnað krónunni og bendir á að fjármálaráðherrar í nítján Evrópulöndum hafi þegar hafnað sínum miðli fyrir evruna. „Já, fjármálaráðherra ber skylda til að leggja til þann kost sem er farsælastur fyrir Íslendinga,“ skrifar Benedikt.

Fjármálaráðherra telur íslensku krónuna „óútreiknanlega eins og glöggt hefur komið fram undanfarna daga.“ Hann segir enn fremur að örlitlar breytingar í utanríkisverslun og gjaldeyrisflæði geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á hag fyrirtækja og almennings.

Hann segir sterka krónu ógna afkomu fyrirtækja sem græddu vel á veikri krónu fyrir fáeinum misserum. „Krónan er hemill á heilbrigð viðskipti,“ skrifar Benedikt. Fjármálaráðherra heldur áfram og vísar til hvernig málið blasir við almenningi: „Eftir hrunið var krónan lítils virði og kaupmáttur dvínaði. Nú er öldin önnur. Krónan hefur náð sömu hæðum og fyrir hrun og það er lítið mál að skjótast á fjarlæg heimshorn. Kaupmáttur hefur aukist mikið á Íslandi að undanförnu og verkefni næstu missera er að varðveita hann. Krónan leiðir til óstöðugleika, býr til sveiflur sem leiða til óábyrgra fjárfestingarákvarðana og óstöðugs kaupmáttar. Vextir eru og verða mun hærri á Íslandi en í viðmiðunarlöndum vegna óstöðugleika krónunnar. Þetta er ósanngjarnt og leiðir til óþarfa átaka í samfélaginu,“ skrifar hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og stuðningsmaður krónunnar, skrifar í ummæli við pistilinn og svarar spurningunni áleitnu: „Má fjármálaráðherra hafna krónunni?“ Svar Sigmundar er einfalt: „ Nei .“