Almenna leigufélagið er í eigu sjóðs í rekstri hjá GAMMA sem er í dreifðu eignarhaldi fjölbreytts hóps fagfjárfesta og stofnanafjárfesta. Félagið er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðasafn félagsins telur um 1.250 íbúðir. Í kjölfar yfirtöku Almenna leigufélagsins á fasteignum Kletts fyrir 10 milljarða króna tvöfaldaðist íbúðasafn Almenna leigufélagsins. Nýverið keypti félagið einnig BK eignir og í kjölfarið stækkaði íbúðasafn Almenna leigufélagsins upp í fyrrgreinda tölu, 1.250 íbúðir.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, segir að félagið hafi verið í miklu vaxtarferli allt síðasta ár. „Reksturinn gekk mjög vel á síðasta ári, en nýtingarhlutfall eigna var yfir 99% og tekjur jukust um 16% milli ára. Einnig fer árið 2017 vel af stað enda mikil samlegðaráhrif af samruna við Leigufélagið Klett, og nýafstaðin yfirtaka á BK eignum mun skila sér í enn meiri stærðarhagkvæmni,“ segir María Björk.

Létta á þrýstingnum á leigumarkaði

Talsverð gagnrýni hefur verið á starfsemi Almenna leigufélagsins í fjölmiðlum upp á síðkastið þar sem staða félagsins á markaði hefur verið sett í samhengi við hækkandi íbúða- og leiguverð. María Björk segir að félagið geri sér grein fyrir að það sé mikill uppsafnaður skortur á fasteignamarkaði. „Það eru nokkur þúsund íbúða sem þarf að byggja til að vinna upp uppsafnaða þörf,“ segir hún.

Hins vegar gefur hún lítið fyrir þá gagnrýni sem hefur verið sett fram. „Gagnrýnin felst mikið til í því að við séum að ýta upp leiguverðinu. Það er af og frá að aukið framboð leiði til hækkunar. Við lítum á að við séum að létta á þrýstingnum á leigumarkaði. Það er mjög fjarri lagi að við séum í markaðsráðandi stöðu, þar sem við erum eingöngu lítill hluti af almenna leigumarkaðinum,“ segir María Björk.

„Það má einnig líta til þess að húsnæðisverð hefur á síðustu tólf mánuðum hækkað um 20% en einungis um 12% á leigumarkaði. Þrýstingurinn er því meiri á eignamarkaðinum,“ bætir hún við.

Engar stórar yfirtökur í farvatninu

Eftir mikið vaxtarferli sér María Björk ekki fram á miklar stækkanir á eignasafni félagsins á næstu misserum. „Við erum búin að vera að vinna í því að klára viðskiptin með BK eignir. Það eru ekki neinar stórar yfirtökur í farvatninu, en við skoðum öll tækifæri, ef það er eitthvað sem þjónar hagsmunum félagsins skoðum við það að sjálfsögðu,“ tekur hún fram.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.