Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi skráningu Símans á orðmerkinu „tímaflakk“  hjá Einkaleyfastofu. Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, höfðaði dómsmál á hendur Símanum vegna skráningarinnar.

Síminn hafði krafið Fjarskipti um 400 milljónir króna skaðabætur vegna meintrar ólögmætrar notkunar á vörumerkinu „tímaflakk“. Í tilkynningunni Fjarskipta árið 2015 kom fram að Fjarskipti hf. teldi ekki grundvöll fyrir kröfunni m.a. þar sem ágreiningurinn um skráningu Símans á vörumerkinu væri ekki til lykta leiddur fyrir dómstólum. Auk þess taldi Fjarskipti fjárhæð bótakröfunnar í engu samræmi við málsatvik og dómafordæmi.

Eftir dóm Héraðsdóms er öllum heimilt að nota orðmerkið „tímaflakk“ að vild samkvæmt tilkynningu frá Fjarskiptum.

Símanum var jafnframt gert að greiða 700 þúsund króna málskostnað Fjarskipta.