Umframeftirspurn var í fjármögnun framtaksstóðarins SÍA IV sem Stefnir hf. kom á fót. Heildarfjárhæð áskrifta nam um tuttugu milljörðum króna en sextán milljarðar voru í boði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stefni.

Sjóðurinn mun fjárfesta í hlutabréfum óskráðra fyrirtækja með það að markmiði að taka þátt í verðmætasköpun gegnum uppbyggingu og umbreytingu í rekstri. Auk þess verður lögð áhersla á að fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í tileinki sér sjálfbærni og samfélagsábyrgð að því fram kemur í tilkynningunni.

„Við teljum að á næstu árum verði góð tækifæri til fjárfestinga þar sem við erum að koma úr umhverfi og aðstæðum sem hafa markast af óvissu og biðstöðu. Fyrirtæki sjá tækifæri til að sækja fram og gera umbætur á sínum rekstri sem í mörgum tilvikum mun kalla á aukið hlutafé og breytingar á eignarhaldi. Þá er fjöldi fyrirtækja að færast af frumstigi og yfir á vaxtarstig og þarf á fjármagni og aðkomu nýrra fjárfesta að halda til að raungera áform sín. Með þeim stuðningi sem fjárfestar hafa sýnt okkur er SÍA IV vel í stakk búinn að taka virkan þátt í áframhaldandi uppbyggingu í íslensku atvinnulífi,“ er haft eftir Arnari Ragnarssyni, forstöðumanni sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni.

Líkt og nafnið gefur til kynna er þarna á ferð fjórði framtakssjóður Stefnis. Forverar hans hafa á síðustu tíu árum tekið þátt í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi fyrir um 50 milljarða króna og meðal annars komið að uppbyggingu skráðs hlutabréfamarkaðar, meðal annars með nýskráningum félaga í eigu sjóðanna á aðalmarkað og sölu þeirra til skráðra félaga.