Úrvalsvísitalan náði nýjum hæðum  í 3.423 stigum eftir 0,9% hækkun í dag. Vísitalan hefur nú hækkað um 61% á einu ári. Alls var 5,7 milljarða velta á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar, þar af voru 4 milljarða velta með hlutabréfa Arion, Kviku og Íslandsbanka.

Nærri tveggja milljarða velta var með hlutabréf Arion sem hækkuðu um 1,5%. Hlutabréfagengi Arion náði 170 krónum á hlut á ný en gengi bankans hefur hækkað um 79% í ár. Kvika hækkaði mest af bönkunum þremur, eða um 1,6%, en gengi Kviku stendur nú í 24,8 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði sömuleiðis um eitt prósent og stendur nú í 122,2 krónum á hlut, 54,7% yfir útboðsgenginu í júní.

Það var hins vegar Síminn sem hækkaði mest allra félaga eða um 2,7% í 300 milljóna veltu. Festi fylgdi Símanum á eftir í 2,4% hækkun en gengi smásölufyrirtækisins stóð í 215 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar, sem er hæsta dagslokagengi félagsins frá skráningu. Hlutabréfaverð Festi hefur hækkað um 49% á einu ári. Gengi Haga náði einnig methæðum í 66 krónum eftir 0,8% hækkun í dag.