Þýska flugfélagið Lufthansa hefur tilkynnt um 22 þúsund uppsagnir sem hluti af endurskipulagningu félagsins vegna erfiðleika í flugiðnaðinum sökum Covid.

Um helmingur af uppsögnunum verður í Þýskalandi og vonast flugfélagið til þess að ná samkomulagi við verkalýðsfélög fyrir 22. júní næstkomandi. Í tilkynningunni segir að félagið muni reyna að lágmarka fjölda uppsagna, til að mynda með styttingu vinnutíma. Um 135 þúsund manns starfa hjá Lufthansa víðs vegar um heiminn.

„Án verulegs niðurskurðar í launakostnaði á meðan ástandið stendur yfir þá munum við missa tækifæri á góðri endurkomu og hætta á því að Lufthansa Group komi mjög veikt úr krísunni,“ er haft eftir Michael Niggemann, vinnumálastjóra flugfélagsins í frétt BBC .

Sjá einnig: Leggja Germanwings niður

Lufthansa samþykkti á dögunum ríkisstuðning frá þýska ríkinu að andvirði 9 milljarða evra sem jafngildir um 1.373 milljarða íslenskra króna. Þýski ríkissjóðurinn mun eignast 20% hlut í flugfélaginu en stjórnvöld áætla að selja hlutinn aftur fyrir árslok 2023.