Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár greitt tæplega fjórar milljónir króna í „nagladekkjatalningu“ til Eflu verkfræðistofu. Þá hefur borgin það sem af er öld greitt ríflega 24 milljónir króna í auglýsingar til að draga úr nagladekkjanotkun.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri fundargerð skipulags- og samgönguráðs borgarinnar en þar er að finna svör við fyrirspurnum borgarfulltrúa Miðflokksins þessa efnis.

Af yfirlitinu um auglýsingakostnað má ráða að sum ár hafi lítið sem ekkert verið auglýst. Til að mynda var fjárhæðin núll krónur árið 2015 og 15 þúsund ári síðar. Nokkuð hefur verið bætt í síðan þá. Kostnaður vinn var tvær milljónir króna 2017 og 2019 og tæplega sex milljónir króna árið 2020.

Borgin hefur síðan um árabil reynt að hafa yfirsýn um það hve margir aka um stræti hennar á negldum hjólbörðum en þeirri talningu hefur verið úthýst til Eflu frá árinu 2008. Á síðasta áratug nam greidd fjárhæð fyrir þjónustuna á bilinu 128 þúsund krónum á ári og upp í 476 þúsund krónur. Reikningar fyrir hverjum lið fylgdu ekki með en þeir voru trúnaðarmerktir.

„Langflestir kunna að telja upp í hundrað“

„Svörin bera það með sér að engin ástæða er til að fá verkfræðistofu til að sjá um talningarnar. Starfsmenn borgarinnar geta auðveldlega séð um þetta og enga sérfræðimenntun þarf til að telja dekk eða halda utan um slíkt verkefni. Langflestir kunna að telja upp í hundrað og jafnvel upp í þúsund eða meira. Hér er augljóslega verið að sóa féi borgarbúa með óþarfa milliliði,“ segir í bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af þessu tilefni.

„Fulltrúi Flokks fólksins spurði um þóknun til Eflu fyrir að telja nagladekk og er svarið trúnaðarmerkt. Af hverju? Engin rök fylgja svo álykta má að sú tala sem birt er þyki skipulagsyfirvöldum þessleg að best er að hún komi ekki fyrir almenningssjónir,“ segir þar enn fremur.

„Rúmlega 24 milljónum hefur verið varið í auglýsingar til að draga úr notkun nagladekkja sl. ár og náði eyðslan hámarki árið 2020 eða tæpum 6 milljónum. Talið er að þessar fjárhæðir séu ekki tæmandi taldar vegna ónógra upplýsinga í fjármálakerfum Reykjavíkur. […] Það er forkastanlegt hvernig farið er með almannafé Reykvíkinga í svona vitleysu út í loftið án markmiða,“ segir í bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins af sama tilefni.