Í ágúst mánuði voru gistinætur á íslenskum hótelum 433 þúsund sem er 24% aukning ef horft er til sama mánaðar í fyrra. .

Gistinætur erlendra gesta voru 93% af heildarfjöldanum og fjölgaði þeim um 25% frá sama tíma í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði einnig eða um 15%.

Rúmlega helmingur á höfuðborgarsvæðinu

Flestar þeirra, eða 53% allra gistinátta, voru á höfuðborgarsvæðinu, eða 232.800 en það er 22% aukning miðað við ágúst 2015. Næstflestar voru gistinæturnar á Suðurlandi eða um 68.500.

Ef horft er til skiptingar eftir þjóðernum hinna erlendu gesta voru Bandaríkjamenn með 96 þúsund þeirra, þjóðverjar með 79.600 og Bretar með 40.300 gistinætur.

Tæplega þriðjungsaukning milli ára

Aukningin var 29% þegar horft er til tólf mánaða tímabils frá því í september 2015 til ágúst í ár miðað við árið á undan. Var þá heildarfjöldi gistinátta á hótelum hér á landi 3.389.000.

Nýting hótelherbergja var 93,6% á höfuðborgarsvæðinu í ágústmánuði, sem er aðeins betri en nýtingin á Austurlandi þar sem hún var 93,3%. Best var nýtingin hins vegar á Suðurnesjum en þar var hún 96,3%.