Komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar hefur aukist milli ára, og stefnir að því að í ár verði 100 skipakomur til bæjarins. Allt árið í fyrra voru þær 83 sem var metár, og nú stefnir í nýtt met.

Um borð í þeim skipum sem eru á leið til bæjarins er pláss fyrir allt að 102 þúsund manns, en heildarmagnið á síðasta ári var um 84 þúsund farþegar. Er um að ræða rúmlega fimmtungsaukningu bæði í fjölda skipa og farþega.

Þrjú skip við bæinn í dag

Nú eru þrjú skip í vari við bæinn, en vegna stærðar komast aðeins sum þeirra til hafnar, en önnur ferja farþega til og frá bryggju þar sem þeir sækja sér ýmis konar þjónustu eða fara í styttri ferðir til að virða fyrir sér töfra Vestfjarða.

Stefnir í að um helgina, að föstudeginum meðtöldum komi alls 6 skip til bæjarins en síðustu helgi voru þau 7.

Næstum 10 þúsund gestir á einni helgi

Farþegafjöldinn nú er í heildina 4.552 miðað við getu skipanna, en síðustu helgi voru enn stærri skip við bæinn og var þá heildarfjöldinn 9.631.

Þess má geta að í Ísafjarðarbæ búa um 3.600 manns, þar af um 2.600 í bænum eyrinni sjálfri við Skutulsfjörðinn, sem í daglegu tali kallast Ísafjörður, svo farþegafjöldinn um þessa einu helgi var fjórfaldur íbúafjöldi bæjarins.

Bæta upp fyrir missi kvótans

Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Ísafirði og áheyrnarfulltrúi í hafnarstjórn og bæjarsjóði segir fjölgunina koma sér mjög vel fyrir bæjarbúa, og hafi hún bætt stöðu hafnarsjóðs stórum.

„Reyndar var hún í mínus eftir kvótahrunið en með tilkomu þessara skemmtiferðaskipa hefur afkoman verið tug milljóna króna í plús og margfeldsiáhrifin skilað sér víða,“ segir Marzellíus. „Það sem meira er er það að heimamenn sjá alfarið um þjónustuna og því verður útsvarið eftir í bæjarfélaginu.“