Hagnaður Norvikur, móðurfélags BYKO og annarra fyrirtækja, nam rúmum 5,8 milljörðum króna á síðasta ári og fjórfaldaðist á milli ára. Stærstur hluti hagnaðarins, eða um 4,2 milljarðar króna, kom til vegna hlutdeildar Norvikur í sænska félaginu Bergs Timber AB.

Rekstrartekjur Norvikur árið 2021 námu rúmum 23 milljörðum króna og jukust um tæp 12% á milli ára. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir skatta og afskriftir (EBITDA) rúmum tveimur milljörðum króna og jókst um rúm 12% á milli ára.

Eigið fé Norvikur nam tæpum 33 milljörðum króna í árslok 2021 og jókst um rúma fjóra milljarða á milli ára. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 350 milljónir króna í arð á árinu vegna síðasta rekstrarárs.

Í ársreikningi Norvikur kemur fram að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi haft óveruleg áhrif á rekstur félagsins, en hins vegar ríki óvissa vegna átakanna í Úkraínu og áhrifa þeirra á aðfangakeðjuna og hrávöru. Átökunum hafi þegar fylgt hnökrar í afhendingum á vörum frá nokkrum birgjum BYKO og hefur þurft að leita til annarra birgja með aðföng þar sem hluti hefur komið frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Óvissa vegna átakanna hafi birst í verðhækkunum sem drifnar séu áfram af hækkandi orkuskorti og framboðsvanda.