Hagnaður þeirra fjögurra Sparisjóðasem eftir eru í landinu jókst umtalsvert á síðasta ári frá fyrra ári. Þannig nær sjöfaldaðist hagnaður Sparisjóðs Austurlands, úr 10,2 milljónum í 69,8 milljónir króna, þreföldun var á hagnaði Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, úr rúmlega 52,1 milljón í rúmlega 153,2 milljónir króna, hagnaður Sparisjóðs Strandamanna var rúmlega tveimur og hálfs sinnum meiri, og fór úr 33,5 milljónum króna í 85,7 milljónir.

Loks jókst hagnaður Sparisjóðs Höfðahverfinga um rúmar 60 milljónir, eða úr tæplega 1,4 milljónum króna í 61,7 milljónir króna. Samtals jókst hagnaður sparisjóðanna úr 97,2 milljónum króna árið 2017 í rúmlega 370,4 milljónir árið 2018, sem er aukning um 280% eða nærri fjórföldun milli ára.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins fyrir ári kom fram að sparisjóðirnir þurftu að bæta eiginfjárstöðu sína til að uppfylla stighækkandi kröfur Fjármálaeftirlitsins. Þá stefndi í að tveir af sjóðunum, Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Höfðahverfinga, þyrftu að auka eigið fé sitt áður en aðlögunartíminn til 1. febrúar 2019 rennur út.

Um áramótin 2017 til 2018 nam eiginfjárhlutfall fyrrnefnda sjóðsins um 17,88%, reiknað af Fjármálaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum 84. greinar laga um fjármálafyrirtæki, en á árinu jókst eigið fé sjóðsins um 25,9%, úr rétt tæplega 700 milljónum króna í 881,3 milljónir. Samt sem áður lækkaði eiginfjárhlutfallið, þannig reiknað, niður í 17,71%, sem er rétt yfir kröfunni sem sett var í upphafi árs í 17,69%. Um miðjan síðasta mánuð hefði hlutfallið hins vegar þurft að vera búið að hækka í 18,19% en kröfurnar fara í 19,44% fljótlega á næsta ári eða byrjun febrúar.

Samfélagsskylda til viðbótar

Gerður Sigtryggsdóttir, sparisjóðsstjóri Suður Þingeyinga, segir að þessar auknu eiginfjárkröfur á sparisjóðina neyði þá til að stefna harðar að hagnaði. „Sparisjóðir hafa alla jafna ekki haft það sem markmið, þó við viljum auðvitað hagnast til að geta rekið okkur vel inn í framtíðina og haft borð fyrir báru, bæði fyrir reksturinn en einnig til að stuðla að þeim samfélagsverkefnum sem okkur ber lagaleg skylda til að standa að ólíkt stóru bönkunum,“ segir Gerður.

Hún telur að sjóðurinn muni uppfylla hina hækkuðu kröfu í næsta uppgjöri. „Mér sýnist að það muni sleppa, en við erum tæp, og næsta hækkun verður svolítið erfið fyrir okkur. Þess vegna var ákveðið á aðalfundi sjóðsins í apríl að fara í stofnfjáraukningu upp á 80 milljónir króna, sem nú stendur yfir. Þetta virkar þannig að þeir 400 stofnfjáreigendur sem eru hjá okkur hafa frest til 1. júlí til að nýta forkaupsréttinn og hefur það farið mjög vel af stað og þeir verið mjög öflugir í að skrá sig fyrir viðbótum, en eftir það förum við að taka við beiðnum frá öðrum.

Auk þess reiknum við með svipuðum hagnaði á þessu ári líkt og á því síðasta, vegna þeirrar útlánaaukningar sem við höfum náð að undanförnu þó það hafi verið svolítil stöðnun hérna á svæðinu aftur síðasta hálfa árið eða svo. Vissulega finnum við að þetta ár verður strembið hjá mörgum í ferðaþjónustunni á svæðinu, en ég hef ekki þungar áhyggjur af því að það sé að fara virkilega illa hjá neinum, þannig að það hafi áhrif á okkur eða okkar viðskiptavini.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .