Eftir að landamæri Íslands voru opnuð á ný, þann 15. júní, til 30. júní voru rúmlega 14 þúsund farþegar skimaðir í Leifsstöð, minnst um 700 og mest um 1.400 á dag. Því er enn svigrúm fyrri því 2.000 farþega marki sem nefnt hefur verið, frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Á heimasíðu Isavia eru skráðar 346 komur og brottfarir áætlunarflugs um völlinn í júní, en á sama tíma í fyrra voru þær 8.353 talsins. Upplýsingar um farþegafjölda liggja enn ekki fyrir, en í júní í fyrra er skráður farþegafjöldi um Leifsstöð 787.752.

Sama er uppi á teningnum þegar kemur að fjölda flugfélaga sem hingað sækja. Í fyrrasumar hafði 21 flugfélag viðkomu í Keflavík í áætlunarflugi, en það sem af er sumri hafa sjö félög haldið uppi þjónustu. Icelandair á þar stærstan hlut með 58% ferða og á eftir fylgir Wizzair með 23%.