FL Group [ FL ] er langt komið með að losa sig úr flestum fasteignaverkefnum sem félagið fjárfesti í seinasta vor og sumar í samstarfi við fasteignafélagið Bayrock. Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, segir að verkefnin hafi gengið þokkalega en ákveðið hafi þó verið að draga sig úr þeim flestum, að undanskildu svo kölluðu Soho-verkefni, sem felst í byggingu fimm stjörnu hótels í Soho hverfinu á Manhattan í New York í samstarfi við Donald Trump og Sapir Organization.

“Við erum nokkuð langt komnir með að losa okkur úr þessum verkefnum. Við fórum inn í það á sínum tíma með ákveðinn tímaramma í huga og það er verið að vinna út frá því. Miðað við núverandi aðstæður viljum við minnka okkar hlut og klára málin, því það er ómögulegt að sjá hvert markaðurinn er að fara. Það er ekki stórt mál í heildarsamhenginu, eða um 2% af  efnahagsreikningnum. Miðað við stöðuna í Bandaríkjunum er allgott að komast úr þeim með nokkrum hagnaði,” segir Jón. Í gær var tilkynnt um að Landic Property hf. hefði keypt hlut FL Group í alþjóðlegu fasteignasjóðunum Prestbury, Lxb, Catalyst Capital, Terra Firma og WCC Europe.

Kaupverðið er 20,6 milljarðar króna og voru kaupin fjármögnuð með víkjandi láni með breytirétti sem kemur til greiðslu eftir fimm ár.

Fimm stjörnu hótel og lúxusíbúðir

FL Group fjárfesti um mitt ár í fyrra fyrir um 50 milljónir dollara, í samstarfi við Bayrock Group, í fjórum fasteignaverkefnum í Bandaríkjunum. Fyrir utan Soho-verkefnið má nefna byggingu fimm stjörnu hótels á strönd Fort Lauderdale í samstarfi við Donald Trump, þróun á 13 ekru landsvæði í Whitestone, Queens, þar sem Bayrock hefur áform um að byggja fjölda lúxusíbúða, og svokallað Camelback-verkefni, sem felst í byggingu fimm stjörnu hótels í Phoenix í Arizona-fylki.  FL Group gerði einnig samkomulag við Bayrock Group um jafna hlutdeild í sameiginlegu félagi sem ætlað er að fjárfesta í alþjóðlegum verkefnum á sviði fasteignaþróunar. Þá gekk FL Group einnig til samstarfs um byggingu á Midtown Miami, sem felst í þróun á 500 þúsund fermetra landsvæði í miðborg Miami, sem felur í sér byggingu á háhýsum, skrifstofubyggingum og verslanarými.