Nasdaq verðbréfamiðstöð var stofnuð árið 1997 en hóf starfsemi árið 2000. Fyrirtækið hefur frá árinu 2008 verið í eigu bandarísku kauphallarsamstæðunnar Nasdaq, sem rekur kauphallir á 26 mörkuðum, tvær verðbréfamiðstöðvar og eitt uppgjörshús.

Til Nasdaq-samstæðunnar telja yfir 5.000 starfsmenn, en starfsmenn Nasdaq verðbréfamiðstöðvar eru níu talsins. Fyrirtækið annast miðlæga skráningu rafrænna verðbréfa sem gefin eru út af íslenskum fyrirtækjum, vörslu verðbréfanna og uppgjör viðskipta sem hafa farið fram með rafrænt skráð verðbréf. Einnig þjónustar fyrirtækið útgefendur við hluthafaskrár, afborganir og fyrirtækjaaðgerðir.

Verðmæti eigna í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar – hlutabréf, ríkisbréf, íbúðabréf og önnur bréf – var samtals 4.100 milljarðar króna um síðustu áramót. Er það um 10% aukning frá fyrra ári. Aðilar að verðbréfamiðstöðinni voru 17 talsins í desember síðastliðnum.

Nasdaq verðbréfamiðstöð er í 3. sæti í flokki meðalstórra fyrirtækja á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki. Fyrirtækið er í 98. sæti á heildarlistanum.

Íþyngjandi regluverk

Guðrún Blöndal, fráfarandi framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar, segir rekstur fyrirtækisins hafa gengið prýðilega á síðasta ári, líkt og undanfarin ár.

„Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel síðustu ár og árið 2017 var engin undantekning. Tekjurnar voru svipaðar og árið á undan, en kostnaður jókst um 9% milli ára,“ segir Guðrún. Aðaltekjur fyrirtækisins eru vörslutekjur sem miðast við markaðsvirði skráðra og nafnvirði óskráðra verðbréfa, árgjöld útgefenda og fjármálastofnana og færslutekjur. Stærstu útgjaldaliðirnir eru launakostnaður, vörslukostnaður og tæknikostnaður.

„Aukning kostnaðar kemur aðallega til vegna þess að við höfum verið að vinna að breytingum í tengslum við innleiðingu nýrrar reglugerðar – CSDR (Central Securities Depository Regulation) – fyrir verðbréfamiðstöðvar sem starfa á Evrópska efnahagssvæð- inu,“ segir Guðrún. Reglugerðinni er ætlað að samræma verklag og reglur í tengslum við verðbréfauppgjör í Evrópu og gjörbreytir innra skipulagi og eykur kröfur í upplýsingagjöf til eftirlitsaðila. Til að mynda eru auknar kröfur gerðar um óhæði stjórnarmanna, aukin áhersla er lögð á áhættustýringu og eiginfjárkröfur eru hertar. Með auknu evrópsku regluverki eykst kostnaður verðbréfamiðstöðvarinnar.

Tvíkeppni í augsýn

Í október síðastliðnum veitti fjármála- og efnahagsráðuneytið Verðbréfamiðstöðinni starfsleyfi til að starfa sem verðbréfamiðstöð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur um árabil haft einokunarstöðu á markaði með skráningu verðbréfa.

Guðrún segir að innkoma Verðbréfamiðstöðvarinnar á markaðinn muni auka flækjustigið og kostnað.

„Þetta er andstætt þeirri þróun sem á sér stað í Evrópu. Íslenski verðbréfamarkaðurinn er smár í samanburði við aðra. Aðrir norrænir markaðir eru til dæmis með eina verðbréfamiðstöð á hverjum markaði. Að reka tvær verðbréfamiðstöðvar mun að mínu mati flækja verklagið fyrir markaðsaðila í verðbréfauppgjöri, fjárstýringu, afstemmingum og í framkvæmd fyrirtækjaaðgerða. Kostnaður þátttakenda á íslenska markaðnum eykst og mun á endanum minnka samkeppnishæfni markaðarins.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .