Samkvæmt opinberum tölum frá Íran hefur verið mikil aukning ferðamanna til landsins á tólf mánaða tímabili sem lauk í mars á þessu ári og nam fjölgunin 50% frá sama tímabili ári fyrr. Náði heildarfjöldinn meira en 6 milljón ferðamönnum, á tímabilinu sem er þrefaldur fjöldi ferðamanna til landsins árið 2009.

Fjölgunin kemur í kjölfar samkomulags sem stjórnvöld í Íran og Bandaríkin náðu um kjarnorkuuppbyggingu landsins sem leiddi til þess að mörgum af helstu viðskiptatálmunum á landið var aflétt. Hófu evrópsk flugfélög eins og British Airways og Lufthansa beint flut til landsins á ný og írönsk stjórnvöld gerðu auðveldara að fá visa til landsins.

Aukin eftirspurn laðar að hótelkeðjur

Með auknum fjölda ferðamanna hefur eftirspurnin eftir gistingu aukist gríðarlega að því er CNN segir frá, sem hefur skapað tækifæri fyrir bæði innlenda frumkvöðla sem og erlend fyrirtæki.

Jafnframt eru alþjóðlegar hótelkeðjur að koma sér fyrir í landinu í töluverðu mæli til að mæta þörfum um aukið gistirými. Franska Accor keðjan var sú fyrsta til að opna í landinu, sem hún gerði árið 2015, en nú starfrækir hún tvö hótel í landinu.

Melia keðjan frá Spán hyggst opna sitt fyrsta hótel á næsta ári og Rotana frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum stefnir að opnun snemma á næsta ári, auk þess að ætla sér að opna þrjú til viðbótar árið 2020.

Breska félagið EasyHotel sem starfrækir ódýra gististaði samdi í júlí um að opna 500 herbergi að því er fréttir hermdu.

Stefna að 20 milljón ferðamönnum

Ferðamálayfirvöld í landinu stefna að því að fá meira en 20 milljón ferðamenn til landsins árið 2025. Margir ferðalanganna eru ungir bakpokaferðalangar frá Evrópu og Asíu, og eru hinar fornu borgir Esfahan og Shiraz einna vinsælastar, en í síðari borginni er hin sögufræga Persepolis staðsett.

Helstu vandamálin sem vestrænir ferðalangar eru sagðir standa frammi fyrir í landinu er að enn þurfa ferðamenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada að sækja um visa fyrir fram, meðan ferðamenn frá mörgum öðrum vestrænum ríkjum geta fengið dvalarleyfi við komu.

Annað vandamál og sýnu verra er þó að erfitt er að bóka gistingu fyrir fram enda virka fæst vestræn kreditkort í landinu.