Jón Ásgeir Jóhannesson segir miklar breytingar hafi orðið á íslensku viðskiptaumhverfi á undanförnum árum í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar.

Allt öðru vísi sé staðið að fyrirhugaðri sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka í sumar en þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir við upphaf aldarinnar. Eftir að Orca hópurinn svokallaði, sem samanstóð af Jóni Ásgeiri, Jóni Ólafssyni, Þorsteini Má Baldvinssyni og Eyjólfi Sveinssyni, keypti hlut ríkisins í Fjárfestingabanka atvinnulífsins við litla hrifningu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra hafi verið breytt um kúrs í einkavæðingu. Aðilar tengdir Sjálfstæðisflokknum hafi fengið að kaupa Landsbankann og aðilar tengdir Framsóknarflokknum keypt Búnaðarbankann. Jón Ásgeir segir að byrjendabragur hafi verið á þessum einkavæðingum en óvild stjórnmálafla í sinn garð hafi smám saman magnast upp.

Fleiri efnaðir í dag

Hann segir að íslenskt viðskiptalíf sé varanlega breytt en efnuðum Íslendingum hafi þó ekki fækkað, þó minna beri á þeim. „Á árunum fyrir hrun þótti það svo mikil frétt ef einhver var ríkur. Það hefur breyst. Ég held að Íslendingar eigi miklu fleiri milljarðamæringa í dollurum núna en fyrir hrun, þeir eru bara ekkert að flagga því. Þessir aðilar eru bæði á Íslandi og erlendis. Fólki er meira sama núna, þetta er ekki „headline news” lengur,” segir Jón Ásgeir.

Umsvif Jóns Ásgeirs í dag byggi hins vegar á fé frá eiginkonu hans, Ingibjörgu Pálmadóttur, en Jón Ásgeir er í dag stjórnarformaður Skeljungs. „Viðskipti mín núna eru mest í gegnum peninga konunnar minnar. Ég tapaði 99% af mínu fé í hruninu. Það kemur með árunum og þroska að hugsa til mögru áranna, sá partur gleymist þegar maður er „All in“ eins og ég var.“

Jón Ásgeir á svarta listanum en Kári á hvíta

Í viðtalinu fer Jón Ásgeir yfir átök og dómsmál undanfarinna ára. Davíð Oddsson sakaði Jón Ásgeir meðal annars um að hafa reynt að bera á sig fé.

Ég gleymi aldrei þessu „momenti“ þegar ég heyrði í útvarpinu að forsætisráðherra landsins sakar mig um að hafa mútað sér með 300 milljónum. Ég var á Sóleyjargötunni með konunni minni og við horfðum á hvort annað og ég hugsaði bara: Hvað er að gerast hérna? Þetta var svo ótrúleg saga, en svona fór þetta í loftið og það er ekki á hverjum degi sem forsætisráðherra lands segir í fjölmiðlum að reynt hafi verið að múta sér. Ég held að það hafi verið vín um hönd á þessum fundi Davíðs og Hreins og aðstoðarmaðurinn átti að hafa verið á bak við sófa. Það komu alls konar stórkostlegar lýsingar þegar það fór að flettast ofan af þessu,” segir Jón, sem staðfestir jafnframt í viðtalinu að hann hafi síðar hitt Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar, sem hafi sagt við sig:

„Þú ert á svarta listanum hjá Davíð, en ég þeim hvíta, en við komumst hvorugir burt.”

„Já já, það er bara þannig, Kári orðaði þetta skemmtilega við mig og sagði að ég yrði alltaf á svarta listanum hjá Davíð og kæmist aldrei burt af honum.“

Ekki verða of hrifinn af fjárfestingum þínum

Þá viðurkennir Jón Ásgeir að umsvif hans fyrir bankahrunið hafi verið orðin of mikil en hann rak 84 fyrirtæki á sama tíma með og 50 þúsund starfsmenn.

„Menn voru of þandir og menn voru á of mörgum vígstöðvum. Það er ljóst. Ég held að það megi alveg segja að menn voru að fara of víða og í of ólíkar fjárfestingar. Það verður erfitt að fylgjast með öllu þegar umsvifin eru orðin svona mikil. Það er klárt eftir á að hyggja að ég var of nískur á að selja hluti. Það er mikið til í því þegar sagt er: „Never fall in love with your investments” og það er mikið hægt að læra af því. Það er ágæt regla sem góður vinur minn sagði mér einu sinni að ef maður væri kominn með sjö fyrirtæki þyrfti maður að fækka í það minnsta einu. Ég held að það sé ágæt regla og að gefa sér tíma í því sem maður er í og klára það. Það er ein af þeim lexíum sem ég hef lært.“

Hann segir hins vegar að þegar komið er á stóra sviðið í viðskiptum virki það einfaldlega þannig að það sé farið alveg að línunni sem þeir sem stýra regluverkinu setja: „Það eru sömu lögmál í viðskiptum og í handbolta og fótbolta. Ef þú ætlar að spila meter frá útlínunni á vellinum muntu ekki ná sama árangri eins og þeir sem spila alla leið að línunni. Leikurinn er þannig að þú nýtir þér allan völlinn. Það er sama í viðskiptum og í fótbolta.“

Baugsdagurinn í takt við kreðsuna þá

Eitt umtalaðasta partýið á árunum fyrir hrun var Baugsdagurinn í Monakó árið 2007, þar sem Tina Turner söng meðal annarra:

„Það var annað andrúm á þessum tíma og kreðsan sem við vorum í var í þessu. Þetta voru ekki bara íslenskir kaupsýslumenn og þetta var á ákveðinn hátt andrúmsloftið á þessum árum. Við vorum að starfa erlendis og í þessu umhverfi voru partý með heimsfrægum tónlistarmönnum nánast hverja helgi og vakti enga sérstaka athygli þar. Menn áttuðu sig kannski ekki á því hvað þetta myndi vekja mikla athygli á Íslandi. Þetta hefur ekkert horfið og þessar samkomur eru enn í gangi erlendis.“