90% landsmanna verða tengdir skólphreinsistöð eftir fimm ár nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga en í dag er hlutfallið 77%. Jafnframt munu hátt í 10.000 landsmenn bætast í þann hóp að búa við skólphreinsun í ár þegar nýjar hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Akranesi og á Kjalarnesi verða teknar í notkun. Þetta kom fram í nýrri greiningu EFLU um framtíðarhorfur í fráveitumálum og kynnt var á opnum fundi Samorku, Hlúum að fráveitunni, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi klósettsins að því er kemur fram í tilkynningu frá Samorku.

Þá segir einnig að Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá verkfræðistofunni EFLU, hefi rýnt nánar í tölur innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins þar sem fram kom að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Reynir hafi tekið fram að bæta þurfi ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp, hreinsa meira ofanvatn og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða, þar af aukin skólphreinsun um 20 milljarða. Á næstu fimm árum er fyrirséð að fjárfest verði í skólphreinsistöðvum fyrir um fimm milljarða og mun það hífa hlutfall landsmanna sem tengdir eru slíkum stöðvum úr 77% í 90%. Síðustu 10% verði þó erfið að mati Reynis, en þar eru um að ræða minnstu byggðir landsins og rotþrær við sumarhús.