Flest flugfélög heimsinsgætu verið farin í þrot í lok maí verði ekki gripið til róttækra aðgerða. Þetta kemur fram í greiningu CAPA , ráðgjafafyrirtækis á sviði flugiðnaðarins. Flugfélög um allan heim hafa sagt upp tugum þúsunda starfsmanna á síðustu dögum og minnkað leiðakerfi sín um tugi prósenta.

Mörgu flugfélög kunni nú þegar að vera tæknilega gjaldþrota eða brjóti að minnsta kosti í bága við lánaskilmála. Hratt gangi á lausafé enda séu þær flugvélar sem þó fljúga alla jafna hálftómar. Mun fleiri séu að afbóka ferðir en að bóka enda hafi stjórnvöld víða um heim varað við ferðalögum. Staðan sé algjörlega fordæmalaus og snúi vart í fyrra horf á næstunni.

Ríki verði að vinna saman

Viðbrögð stjórnvalda hafi hingað til brugðist hvert við með sínum hætti sem hafi gert stöðuna illt verri. Mörg ríki hafa lokað landamærum sínum sem Alþjóðaheilbrigiðismálastofnunin segir að eitt og sér geri lítið til að hefta útbreiðslu veirunnar.

CAPA segir nauðsynlegt að ríki heimsins taki sameiginlega á stöðunni. Líkur eru á að flugfélögum víða um heim verði veitt ríkisaðstoð á næstu vikum og mánuðum. Líklegt sé að flugfélög sem standi krísuna af sér kunni að verða nátengdara ríkisvaldinu en áður. Ef stjórnvöld vinni ekki saman sé hætta á að stjórnvöld í hverju landi loki flugmarkaðnum í meira mæli fyrir erlendum flugfélögum. Það muni einungis gagnast þeim flugfélögum sem best séu studd af sínum stjórnvöldum en koma niður á samkeppni sem og neytendum.