Á síðasta ári flugu 145.891 flugvél samtals rúmlega 209 milljón kílómetra um íslenska flugumferðarsvæðið. Þetta má sjá í nýjum flugstölum í greiningu Isavia á flugumferð ársins. Sú vegalengd er lengri en fjarlægðin frá jörðinni til sólarinnar og rúmlega það. Vegalengdin til sólarinnar er um 149,6 milljón kílómetrar.

Eins og áður sagði fór 145.891 flugvélar um flugumferðarsvæði Íslands, en það er 11,5% fjölgun frá ári áður. Flognir kílómetrar jukust um sama hlutfall. Um 64% umferðarinnar var á vesturleið og 36% á austurleið sem stafar af ríkjandi vindáttum á svæðinu. Mikill hluti þessarar umferðar er á milli Evrópu og Norður-Ameríku, en um íslenska svæðið fer um 25% þeirrar flugumferðar.

Algengasta leiðin innan flugstjórnarsvæðisins var sem fyrr frá London til Los Angeles en 2.581 ferðir voru farnar þá leið á árinu. 2.232 ferðir voru farnar frá London til Keflavíkur og 2.186 frá Keflavík til London.

Þau sjö flugfélög sem flugu oftast um íslenska svæðið eru Icelandair, United Airlines, Delta, Emirates, Lufthansa, British Airways og SAS.

Millilandafarþegum sem fóru um flugvelli Isavia fjölgaði um 25,5% miðað við árið áður og innanlandsfarþegum fjölgaði um 2,5% á sama tímabili. Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 25,5% en þeir voru 4.858.776 á síðsta ári.