Bréf að andvirði ríflega þremur milljörðum króna skiptu um hendur á aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag. OMXI10 vísitalan hækkaði um 1,77%, stendur nú í 3.257,4, en það var Icelandair sem flaug hæst í dag.

Alls hækkuðu bréf félagsins um 5,59% í 235 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins er nú 1,51 sem er lítillega yfir því gengi sem Bain Capital keypti á. Hluthafafundur félagsins samþykkti síðdegis í dag, eftir lokun markaða, að sjóðurinn gæti komið inn í hluthafahópinn og hefur Úlfar Steindórsson vikið sem stjórnarformaður félagsins.

Þau tvö félög sem hækkuðu næst mest á aðalmarkaði voru Marel og Síminn, hið fyrrnefnda um 2,68% í 528 milljóna viðskiptum en hið síðarnefnda um 2,45% í 204 milljóna viðskiptum. Iceland Seafood hækkaði síðan um 1,5% í 28 milljóna viðskiptum.

Mest viðskipti voru með bréf í Kviku, 721 milljón, og lokaði bankinn í 23,65 krónum á hlut. Hefur gengi bréfanna hækkað um rúmlega 119% síðastliðna tólf mánuði. Önnur félög sem hækkuðu voru Festi, Hagar, Íslandsbanki, Síldarvinnslan og VÍS og var hækkun þeirra á bilinu 0,28 til 0,93%.

Á First North markaðnum hækkaði Play um 4,41% í 89 milljón króna viðskiptum og er gengi félagsins nú í 21,30. Hamiðjan lækkaði aftur á móti um 3,58% í tveggja milljóna viðskiptum og gengi bréfa Solid Cloud lækkaði um fimm prósent í 523 þúsund króna skiptum.

Veltan á skuldabréfamarkaði var takmörkuð en hún nam 150 milljónum króna.