Aðeins fjögur félög hækkuðu á rauðum degi Kauphallarinnar í dag. Fremur lítil velta var á aðalmarkaði, um 3,5 milljarðar króna. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,73% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 3.293,40.

Mest velta var með bréf Arion, en viðskipti með bréfin námu 675 milljörðum króna og lækkaði gengi félagsins mest allra á aðalmarkaði, um 2,14%. Gengi Icelandair lækkaði um 2% í 200 milljóna viðskiptum. Gengi Brim og Síldarvinnslunnar lækkaði einnig um tæp 2% í viðskiptum dagsins.

Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 1,5% í 90 milljón króna viðskiptum. Eimskip hækkaði um 0,85% í 400 milljóna viðskiptum. Gengi Iceland Seafood og Reginn hækkaði auk þess lítillega í viðskiptum dagsins.

Á First North markaðnum hækkaði gengi Hampiðjunnar um 2,5% í 200 þúsund króna viðskiptum. Solid Clouds hækkaði um 9,65% í 120 þúsund króna viðskiptum. Flugfélagið Play lækkaði um 2% í 120 milljóna viðskiptum og gengi Klappa hækkaði um 6,7% í 110 þúsund króna viðskiptum.