Heildarfjöldi farþega Icelandair í síðasta mánuði var um 242 þúsund, samanborið við um 21 þúsund í apríl 2021 og 184 þúsund í mars á þessu ári. Flugframboð í apríl var um 71% af framboðinu í apríl 2019. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir aprílmánuð sem birtar voru í Kauphöll rétt í þessu.

Farþegar í millilandaflugi voru 219 þúsund, eða 25 sinnum fleiri en í apríl í fyrra þegar félagið flutti tæplega 9 þúsund farþega á milli landa. Þar af voru farþegar til Íslands um 95 þúsund og frá Íslandi 53 þúsund. Tengifarþegar voru um 71 þúsund eða um þriðjungur millilandafarþega en til samanburðar voru tengifarþegar um 20% af heildarfarþegafjöldanum í mars 2022 og tæp 40% í apríl 2019.

Stundvísi var 85% og sætanýting í millilandaflugi var 76%, samanborið við 33% í apríl 2021.

Farþegar í innanlandsflugi voru um þúsund talsins samanborið við 12 þúsund í fyrra. Sætanýting í innanlandsflugi var 80%, samanborið við 62% í apríl í fyrra. Það sem af er ári hefur farþegum í innanlandsflugi fjölgað um 40% miðað við sama tíma í fyrra.

Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 6% samanborið við apríl 2021 en fraktflutningar jukust um 29% frá fyrra ári.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við höldum áfram að sjá góðan árangur og flugið eykst jafnt og þétt. Fjöldi tengifarþega er á uppleið og voru þeir um þriðjungur farþegafjöldans í apríl, samanborið við um 20% í mars. Töluverð aukning var í fraktflutningum sem skýrist bæði af meiri innflutningi og auknum vöruflutningum á milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Við finnum fyrir miklum ferðaáhuga og höldum áfram að auka flugið í takt við það, sem endurspeglast í metnaðarfullri sumaráætlun okkar. Staða heimsmála í tengslum við stríðið í Úkraínu hefur skapað ákveðna óvissu í rekstri flugfélaga og munum við hér eftir sem hingað til nýta sveigjanleika félagsins til þess að laga okkur að aðstæðum hverju sinni.“