Flugskóli Reykjavíkur hefur gert samning um kaup á þremur eFlyer kennsluflugvélum. Með kaupunum brýtur skólinn blað í sögu flugkennslu á Íslandi þar sem í fyrsta sinn verður nemendum boðin kennsla á flugvélum sem ganga fyrir rafmagni eingöngu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

„Innleiðing eFlyer í flota flugskólans eru einnig mikilvæg tímamót í orkuskiptum hér á landi og marka upphaf að nýrri og umhverfisvænni framtíð í kennslu til flugs,“ segir í tilkynningunni. Áætlaður afhendingartími er eftir tvö til þrjú ár „sem þykir stuttur tími á þessum nýja og spennandi markaði“.

Flugvélarnar sem um ræðir eru framleiddar af Bye Aerospace (USA) og eru af tvennum toga: annars vegar tvennum eFlyer 2, sem eru tveggja sæta og hins vegar einni eFlyer 4, sem er fjögurra sæta kennsluflugvél. Að auki standa viðræður yfir um samning að kauprétt á tveimur flugvélum í viðbót sem verða kynntar síðar.

„Sem kennslutæki eru eFlyer vélarnar í fremstu röð. Þær eru búnar öllu því besta sem völ er á í stjórntækjum og siglingabúnaði, en mestu nýmælin eru þau að vélarnar eru búnar fallhlífum, sem eru áfastar við skrokk þeirra. Hægt er að sleppa hlífunum með einu handtaki og svífur hún þá örugg til jarðar. Þetta er nýjung sem staðalbúnaður kennsluvéla og eykur öryggi nemanda til muna.“

Þá segir að mikið hagræði felst í notkun rafmagnsflugvéla til kennslu. Rafmagnsmótorar geta skilað hlutfallslega miklu afli og mun eFlyer 2 vélarnar skila 150hp/110kwm sem er um 40-50% meira en brunahreyfill í svipuðum flokki. Mestu munar að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir rafmagn, sem hefur í för með sér umtalsverðan sparnað í rekstrarkostnaði, sem áætlað er að verði eingöngu um 20% af rekstri sambærilegra flugvéla sem nota hefðbundið eldsneyti. Umhverfisáhrifin eru augljóslega afar jákvæð, þar sem kolefnisfótspor við notkun hinna nýju kennsluvéla verður ekkert og hljóðspor nánast ógreinanlegt.

Stutt er síðan þróun rafmagnsflugvéla hófst fyrir alvöru og hefur takmarkað flugþol verið helsti flöskuháls á framleiðslu þeirra fyrir almennan markað. Í tilkynningunni segir að Bye Aerospace hafi með hönnun sinni tekið algera forystu á þessum markaði með því að tryggja þriggja klukkustunda flugþol. Það sé langt umfram helstu samkeppnisaðila á markaði, sem flestir ná um það bil einni klukkustund.

Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur:

„Fjárfesting í rafmagnsflugvélum til kennslu er stórt skref, bæði í sögu flugs á Íslandi almennt og í þeim orkuskiptum sem nú eiga sér stað. Með hinum nýju vélum verður Flugskóli Reykjavíkur leiðandi á sínu sviði og mun með stolti geta boðið upp á fyrsta flokks búnað til þjálfunar og kennslu. Aukið öryggi, lægri kostnaður og umhverfisvænni valkostur mun verða leiðarstef í þjónustu okkar við flugmenn framtíðarinnar.”