Flugfreyjur og flugþjónar Wow air hyggjast stofna sitt eigið stéttarfélag vegna óánægju með að fá ekki að kjósa um nýjan kjarasamning sem formaður Flugfreyjufélagsins telur sig ekki getað skrifað undir.

Kjarasamningur flugliða WOW air hefur verið laus síðan í september 2016 en formlegar samningaviðræður hafa staðið yfir frá því snemma á þessu ári og voru kröfur sem komu frá flugliðum WOW air hafðar að leiðarljósi í samningaviðræðum við flugfélagið.

Nú þegar niðurstaða hefur náðst milli samninganefndar Flugfreyjufélags Íslands og flugfélagið Wow air hefur formaður FFÍ sagst ekki geta skrifað undir samninginn og þar af leiðandi ekki sett hann í kosningu hjá starfsmönnum flugfélagsins.

Mun heita Samband íslenskra flugliða

Hafa því flugliðar Wow air ákveðið að boða til stofnfundar nýs stéttarfélags fyrir flugliða (flugfreyjur og flugþjóna) á Íslandi þann 20. nóvember næstkomandi, sem bera mun nafnið Samband íslenskra flugliða.

„Flugliðum WOW air hefur fjölgað gríðarlega eftir inngöngu í FFÍ árið 2012 og er það ljóst að okkur mun fjölga mikið á næstu ár,“ segir Erla Pálsdóttir hjá undirbúningsnefnd nýs stéttarfélags en þann 27. október síðastliðinn hélt samninganefndin stöðufund með flugliðum félagsins.

„Þegar metin er sú staða sem upp er komin innan FFÍ, hversu lága rödd við höfum innan þess og sú háværa krafa sem upp kom á stöðufundinum um að fá að kjósa um þennan samning þá sjáum við ekki að okkar hagsmunum sé best gætt innan FFÍ og höfum því ákveðið að stofna nýtt félag fyrir flugliða.“