Flugmenn British Airways munu á miðnætti hefja tveggja daga verkfall. Kemur verkfallið til vegna þess að flugmennirnir eru ósáttir við laun sín og vinnuaðstæður. BBC greinir frá þessu.

Farþegum sem áttu bókað flug með félaginu á þessu tímabili hefur verið tjáð að flest flug British Airways hafi verið felld niður og segir félagið að flestir farþegar hafi þegar gert ráðstafnir vegna þessa.

British Airways og stéttarfélag flugmannanna hafa ekki enn náð sáttum í málinu, en báðir aðilar hafa lýst sig viljuga til að setjast aftur að samningaborðinu, með það að markmiði að binda endi á deilurnar.