Flugstjóri á sextugsaldri hefur verið dæmdur til að greiða þremur erfingjum dánarbús 42 milljónir króna auk dráttarvaxta. Maðurinn hafði áður verið dæmdur fyrir misneytingu í sakamáli en lýst sig gjaldþrota undir meðferð þess. Með dómi Héraðsdóms var viðurkennt að fyrningu skaðabótakröfunnar væri slitið.

Sakamálinu lauk með dómi Hæstaréttar í október 2017. Flugstjórinn, sem er búsettur í Þýskalandi og flýgur fyrir Atlanta, hafði verið ákærður fyrir að svíkja 42 milljónir króna af 87 ára gömlum manni. Brotaþoli í málinu hafði alla tíð verið óglöggur á tölur og var auk þess byrjaður að sýna merki þess að kalkast.

Flugstjórinn hafði verið í sveit hjá hinum aldraða á árum áður. Hjá lögreglu bar hann við því að um gjöf hefði verið að ræða en fyrir dómi að þarna hefði verið lán á ferð sem bæri að endurgreiða. Ekki var fallist á þær málsvarnir og var flugstjórinn dæmdur í eins árs fangelsi, níu mánuðir voru skilorðsbundnir, og til að endurgreiða dánarbúi mannsins upphæðina.

Fór til Flórída og naut lífsins

Eftir að dómur héraðsdóms í málinu lá fyrir hafði dánarbúið krafist fjárnáms í búi flugstjórans. Reyndist það árangurslaust. Í mars 2017 var bú mannsins tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt dómi Hæstaréttar. Þegar skiptastjóri búsins tók skýrslu af þrotamanninum kom í ljós að allar eignir búsins hefðu verið seldar og maðurinn hefði „farið til Flórída og haft það gott þar.“ Við sölu á eignum hefðu allir fjármunirnir runnið til fyrrverandi eiginkonu hans. Tilkynnt var um skiptalok í janúar 2018 en þar kom fram að skiptum hefði lokið í júlí 2017 án þess að eignir fyndust.

Erfingjar brotaþolans í sakamálinu erfðu bótakröfuna við skiptalok búsins. Kröfunni hefði verið lýst í þrotabú flugstjórans en ekki fengist greidd. Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti beri þrotamaður ábyrgð á skuldum sem ekki fáist greiddar við skipti en við þær kringumstæður byrjar nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða er skiptum á búi lýkur.

Erfingjarnir byggðu á því að þeim væri heimilt að höfða dómsmál til að rjúfa fyrningu skaðabótakröfunnar. Af því hefðu þau sérstaka hagsmuni og að líkur væru á því að unnt væri að fullnusta kröfuna á nýjum fyrningartíma. Vísuðu þau meðal annars til þess að maðurinn væri flugstjóri og tekjur hans, að viðbættum ökutækjastyrk og dagpeningum, næmu á þriðja tug milljóna króna. Byggðu erfingjarnir einnig á því að þar sem krafan stofnaðist með refsiverðri háttsemi mætti slaka á þeirri kröfu að líklegt væri að krafan myndi endurgreiðast.

Flugstjórinn krafðist á móti sýknu enda væru engar líkur á því að hún myndi innheimtast. Benti hann á að krafan, að teknu tilliti til vaxta, næmi nú tæplega 65 milljón krónum. Tvö ár væru liðin frá því að skiptum á búi hans lauk en síðan þá hafi hann ekki eignast neinar eignir. Allar hans launatekjur hafi farið í framfærslu hans, barna hans og meðlagsgreiðslur. Undir rekstri sakamálsins hefði hann boðið fram 500 þúsund krónur í greiðslur á mánuði en dráttarvextir kröfunnar næmu um 600 þúsund krónum mánaðarlega. Því væru engar líkur á því að krafan myndi innheimtast.

Furðuleg flétta með fasteign

Í niðurstöðu dómsins kom fram að ákvæðið sem erfingjarnir byggðu rétt sinn á hafi komið inn í lög í kjölfar efnahagshrunsins. Markmið breytinganna var að gera þrotamönnum, sem bera áfram ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fengust greiddar við skiptin, auðveldara að koma sér á réttan kjöl á ný. Meginreglan væri sú að þrotamaður kæmist undan skuldbindingu sinni nema kröfuhafi gæti sýnt fram á að hann hefði sérstaka hagsmuni af greiðslu hennar og ef líklegt væri að hún endurheimtist.

Að mati dómsins var á það bent að í greinargerð með frumvarpinu var sérstaklega vísað til tilvika þar sem krafa stofnast við refsiverða háttsemi sem krafna sem falli undir „sérstaka hagsmuni“. Var því fallist á að erfingjarnir hefðu sérstaka hagsmuni af fyrningarslitunum. Eftir stóð þá að meta hvort líkur væru á því að krafan endurheimtist.

Undir rekstri málsins skoruðu erfingjar á manninn að leggja fram afrit af skattframtölum sínum fyrir tekjuárin 2016-18 auk staðgreiðsluyfirlits vegna tekna ársins 2019. Þessu mótmælti flugstjórinn og sagði þar á ferð „órökstuddar dylgjur í sinn garð“. Sagðist hann ekki ætla að leggja fram gögn sem vernduð væru af persónuverndarreglum.

„Dómurinn fær ekki séð að [flugstjóranum] sé stætt á því að neita að leggja fram eigin skattaframtöl og staðgreiðsluyfirlit til að sýna fram á núverandi fjárhagsstöðu sína í samræmi við áskorun [erfingjanna] á grundvelli reglna um persónuvernd. [...] Ljóst er að kröfuhöfum væri í mörgum tilvikum ófært að sýna fram á síðara skilyrði 3. mgr. 165. gr. [gjaldþrotaskiptalaganna] um fullnustu kröfu væri fullnægt ef gjaldþrota einstaklingur gæti vikist undan því að veita upplýsingar um fjárhag sinn þegar hann hefur fengið áskorun um það,“ sagði í niðurstöðu dómsins.

Að mati dómsins var ýmislegt í yfirlýsingum flugstjórans misvísandi. Undir rekstri sakamálanna hafði hann gefið yfirlýsingu um að hann væri borgunarmaður kröfunnar. Þá hefði hann nýtt ávinning brota sinna til að greiða niður lán og skuldi. Þá benti dómurinn á að í júní 2016 seldu hann og eiginkona hans fasteign sína á 58 milljónir króna. Átta dögum síðar keypti fyrrverandi eiginkona mannsins eignina á nýjan leik en kaupverð var þá 48 milljónir.

Þótti flugstjórinn ekki hafa sýnt fram á að hann væri ekki borgunarmaður kröfunnar og því fallist á fyrningarslit hennar. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða um milljón krónur í málskostnað.