Flugviskubit… ég ætla ekki einu sinni að reyna,“ söng Prins Póló í lokalagi Áramótaskaupsins. Orðið flugviskubit fékk formlega skráningu sem íslenskt nýyrði á síðasta ári og má fletta þvi upp í orðabók á netinu. „Samviskubit sem flugfarþegar fá yfir því að ferðast með flugvél, vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum,“ segir til dæmis síðunni orðabok. is.

Og þótt orðið sé glænýtt á það nú þegar samheiti, flugskömm, en miðað við fjölda leitarniðurstaðna á google, virðist flugviskubit hafa náð töluvert meiri útbreiðslu. Uppruna sinn á orðið að rekja til Svíþjóðar þar sem umhverfisaðgerðarsinnar hleyptu af stokkunum átaki í því augnamiði að fá fólk til að fækka flugferðum sínum og taka upp aðra umhverfisvænni ferðamáta í staðinn.

Á sænsku er talað um flygskam og náði orðið strax fótfestu á Norðurlöndunum og þaðan fór það um heimsbyggðina eins og eldur í sinu. Auk mikilla vinsælda orðsins þá virðist merking flugviskubits hafa hitt fólk í hjartastað því átakið skilaði mun meiri árangri en forsvarsmenn þess reiknuðu með í upphafi og leiddi til umtalsverðra breytinga á ferðahegðun fólks.

Farþegum um innanlands flugvelli í Svíþjóð fækkaði um nær 10% í fyrra miðað við árið 2018. Sömuleiðis fækkaði farþegum með sænska flugfélaginu SAS um 2% milli ára. Í báðum tilfellum er samdrátturinn rakinn beint til flugviskubits.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .