Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri Áveitunnar ehf., sem sér um alhliða pípulagningarþjónustu á Akureyri og nágrenni, segir árangur síðustu ára fyrst og fremst byggja á frábæru starfsfólki fyrirtækisins.

„Okkur hefur haldist vel á reyndu starfsfólki, en fyrirtæki er aldrei neitt annað en starfsfólkið. Við erum um 20 og búum öll hérna á Akureyri," segir Haraldur sem merkir aukinn áhuga ungs fólks á að fara í iðnnám.

„Það hefur lítil endurnýjun verið af ungu fólki að fara í iðnnám allt of lengi, en það hefur eilítið breyst síðustu tvö til þrjú árin. Um tíma var ekki hægt að fá ungt fólk í þetta, en við erum með fjóra iðnnema núna. Ég held að fólk hafi séð það eftir síðasta hrun að það þýðir ekkert að allir séu að fara í viðskiptafræði eða lögfræði, það er ekki endalaus vinna í því."

Starfssvæði fyrirtækisins sem er til húsa að Njarðarnesi á Akureyri teygist víða um Norðurlandið. „Við störfum austur á Þeistareykjum, þar sem við erum að ljúka núna verkefni, svo úti á Bakka á Húsavík og upp á Kröflu, og svo hérna út með Firðinum þar sem við erum að byrja núna á frystihúsinu á Dalvík, sem verður aðalverkefnið næsta árið. Ætli starfssvæðið okkar núna sé ekki allt að 150 kílómetra radíus frá bænum.

Haraldur segir félagið einbeita sér að stærri innviðarverkefnum. „Við höfum haldið okkur í stóru verkefnunum, það hefur verið mikið að gera í þeim undanfarin ár, en það myndast aðallega af því að við höfum græjað okkur vel í þessi stóru verk.  Þessi undirbúningur er að skila okkur nú góðum árangri." Haraldur segir að félagið hafi einnig tekið að sér minni verkefni sem komið hafa til vegna aukinnar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði á svæðinu, þó það sé í minna mæli. „Við vorum í minni verkefnum og íbúðarhúsnæði miklu meira með áður, en eftir hrun kláruðum við það mikið niður og færðum okkur yfir á þennan markað stærri innviðaframkvæmda."

Haraldur skýrir hagnaðaraukningu fyrirtækisins á síðasta ári með því að nokkur stór verkefni kláruðust á því ári. „Svo myndaðist einnig söluhagnaður af skrifstofuhúsnæði sem við tókum yfir og endurnýjuðum frá grunni, en þetta var bara eitt af mörgum verkefnum sem við fórum í. Það er helling verið að byggja hérna á Akureyri, en ég held reyndar að sá markaður hljóti að fara að mettast. Við höfum ekki verið að blása út á þessum fasteignamarkaði þó að við höfum aðeins verið í stærri blokkum og öðru slíku. Þrátt fyrir það stöndum við ágætlega, en eftir hrun fórum við einblína meira á þessi stóru verk og erum stærstir á þessu svæði."

Þó að Haraldur sé borinn og barnfæddur Akureyringur liggja rætur fyrirtækisins sem stofnað var fyrir tuttugu árum allt annars staðar á landinu. „Við konan mín, Jóhanna Sólrún Norðfjörð, stofnuðum fyrirtækið á Suðurnesjunum, en þar vorum við strax frá upphafi í stærri verkefnum, vorum í flugstöðinni og orkuverinu þar ásamt ýmsu öðru," segir Haraldur sem dreymdi þó um að flytja aftur norður.

„Við byrjuðum svo á því fyrir 15 árum að fara í verkefni hérna fyrir norðan og síðan ílengdumst við bara. Árangur okkar hér helgast fyrst og fremst af góðu starfsfólki. Þetta snýst ekki um neitt annað, en því miður er eins og margir stjórnendur átti sig ekki á því að fyrirtæki eru ekki neitt annað en starfsfólkið. Við höfum lagt áherslu á góðan starfsanda og að vera fjölskylduvænt fyrirtæki og það hefur gefist vel."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .