Tveir mjaldrar verða fluttir með flugvél Cargolux til Íslands í apríl nk. með það að markmiði að koma þeim fyrir í sjókví í Vestmannaeyjum. TVG-Zimsen mun sjá um landflutning hvalanna eftir að þeir lenda hér á landi og stendur undirbúningur yfir um þessar mundir.

Það er Sealife Trust sem stendur fyrir verkefninu en hvalirnir, sem heita Little Grey og Little White, eru fluttir frá Changfeng Ocean World sædýragarðinum í Shanghai til Vestmannaeyja þar sem þeir fá nýtt heimili í sjókvínni við Heimaey.

„Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni sem mun án efa vekja mikla athygli um allan heim," segir Sigurjón Ingi Sigurðsson, hjá sérverkefnadeild TVG-Zimsen. „Það verða sérútbúnir vagnar sem munu flytja hvalina landleiðinna þar sem m.a. þjálfarar þeirra geta verið í talstöðvarsambandi við þá. Þetta verður krefjandi en mjög skemmtilegt verkefni. Sérverkefnadeild TVG-Zimsen hefur yfir að ráða öflugu starfsfólki sem hefur mikla reynslu af ýmiss konar sérhæfðum flutningum m.a. fyrir stóra tónleika, kvikmyndir, dýrmæta listaverkaflutninga, ýmsum leiguverkefnum á flugvélum og skipum og nú bætast hvalir við. Breiddin er því orðin mjög mikil hjá okkur í sérverkefnaflutningunum," segir Sigurjón ennfremur.