FoodCo hf. sem rekur veitingastaði undir vörumerkjunum Eldsmiðjan, Saffran, Greifinn, American Style, Pítan, Aktu Taktu og Roadhouse velti 3,6 milljörðum króna á síðasta ári og skilaði 135 milljóna króna hagnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Veltan hefur samkvæmt tilkynningunni aldrei verið meiri, en hagnaðurinn er nú svipaður og árið 2014.  Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði og afskriftir var 300 milljónir en var 355 milljónir árið á undan. Heildareignir félagsins námu 1,4 milljörðum og eigið fé 570 milljónum.

Jóhann Þórarinsson, forstjóri FoodCo, segir að launahækkanir starfsmanna á síðasta ári hafi haft mikil áhrif á afkomuna. Reksturinn hefur þó haldið áfram að vaxa, meðal annars vegna aukningu ferðamanna.